144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[23:15]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið.

Ég er með úrklippu úr viðtali við hæstv. utanríkisráðherra þar sem hann segir, með leyfi forseta:

„Við munum væntanlega sjá betri nýtingu á starfsfólki inni á þeirri skrifstofu.“ Og á þá við í utanríkisráðuneytinu þegar búið verður að færa starfsemina alla undir þann hatt.

Maður spyr: Er svona slæm nýting á starfsfólki í dag í utanríkisráðuneytinu? Er ekki verið að tala um að það fólk sem starfar núna í Þróunarsamvinnustofnun færist á milli, að það fari með stofnuninni inn í ráðuneytið? Þá veltir maður fyrir sér, því sem kemur fram í umsögn skrifstofu opinberra fjármála í fjármála- og efnahagsráðuneytinu: „Ekki er gert ráð fyrir að frumvarpið hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs vegna reksturs og styrkja í þessum málaflokki, verði það óbreytt að lögum, þar sem gengið er út frá því að mögulegur ávinningur af samlegð verkefna verði notaður til að auka starfsemina að öðru leyti. […] Ekki er gert ráð fyrir að biðlaunaréttur til starfsmanna stofnist við lögfestingu frumvarpsins enda verði öllum fastráðnum starfsmönnum ÞSSÍ boðin sambærileg störf í ráðuneytinu.“

Telur hv. þingmaður að þetta verði veruleikinn, að ekki komi til að einhver biðlaunaréttur myndist eða réttur þess starfsfólks sem fer þarna á milli? Að það sé sjálfgefið að hægt sé að taka hóp af fólki sisvona og planta honum inn í ráðuneyti? Og að réttindi þess fólks sem hefur áunnið sér þau til fjölda ára vakni ekkert við og (Forseti hringir.) kalli á að þarna verði meiri kostnaður (Forseti hringir.) hjá ráðuneytinu?