144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[23:20]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Herra forseti. Það er ljóst að með þessu frumvarpi á að leggja niður Þróunarsamvinnustofnun, þrátt fyrir gott starf stofnunarinnar. Starf Þróunarsamvinnustofnunar virðist alla vega vera nægilega gott til þess að það sé sérstaklega tekið fram í greinargerðinni sem fylgir þessu frumvarpi, en þar stendur, með leyfi forseta:

„ÞSSÍ hefur unnið mjög gott starf á vettvangi þannig að eftir því er tekið, og hefur margsannað sig í óháðum úttektum.“

Hvers vegna er þá verið að fara í þessar aðgerðir? Ekki virðast breytingarnar leiða til nokkurs sparnaðar né minnkaðs flækjustigs. Hvers vegna að leggja niður stofnunina þegar samvinna Þróunarsamvinnustofnunar og ráðuneytisins er sérstaklega hrósað í skýrslu DAC, þróunarsamvinnunefndar OECD, frá 2012 fyrir skilvirkni og góðan árangur Íslands í málaflokknum? Hvers vegna þessi brýna þörf til að umbylta því ágæta starfi með því að færa öll verkefni Þróunarsamvinnustofnunar inn í ráðuneytið? Maður hefði vonað að markmiðið væri að ná betri árangri í þessu mikilvæga starfi, en engin rök virðast hafa verið færð fyrir slíku.

Rökin þyrftu að vera mjög góð til að réttlæta svona afturför í stjórnarháttum þar sem sjálfstæð stofnun er tekin inn í ráðuneyti, til að hvað? Auka miðstýringu og ógagnsæi? Á hvaða öld lifum við eiginlega? Fyrir utan það, hver á að hafa eftirlit með stofnuninni þegar eftirlitsaðilinn, sem er ráðuneytið, er búið að gleypa stofnunina?

Fram kemur í frumvarpinu að framkvæmd stefnu stjórnvalda um alþjóðlega þróunarsamvinnu, samanber 5. gr., skal háð reglulegu eftirliti og úttektum óháðra aðila. Óháðra aðila, stendur þarna. En svo þegar sóst er eftir því að fræðast frekar um hver sá óháði aðili á að vera kemur fram í frumvarpinu að frekari skýringa sé ekki þörf. Það finnst mér stórfurðulegt og í raun ólíðandi. Hver á að sinna eftirlitinu?

Hæstv. ráðherra hefur sagt opinberlega sem rök fyrir þessari aðgerð að fjöldinn allur af skýrslum styðji mál hans, sem er að best væri að leggja niður Þróunarsamvinnustofnun og færa verk hennar inn í ráðuneytið. En samkvæmt Sigurbjörgu Sigurgeirsdóttur stjórnsýslufræðingi er þetta beinlínis rangt þar sem flestar skýrslurnar sýna fram á að best væri að flytja fleiri verkefni út úr ráðuneytum, ekki inn í þau.

Hvernig stendur á því ósamræmi? Það hlýtur að vera um einhvern misskilning að ræða, því að varla er hæstv. ráðherra að fara með fleipur til að styðja mál sitt.

Ég ætla að leyfa mér að endurtaka það sem ég sagði áðan í andsvari, vegna þess að mér þykir það mjög mikilvægt. Það átti við um athugasemdir Sigurbjargar Sigurgeirsdóttur um rök hæstv. ráðherra. Hún sagði, með leyfi forseta:

„Rökin standast ekki stjórnsýslufræðileg viðmið, standast ekki viðmið um góða stjórnsýsluhætti eða þá stjórnsýslulegu uppbyggingu og áherslu sem hér hefur verið við lýði sem er meiri dreifstýring.“

Ég segi enn og aftur: Ef það er virkilega stefna ríkisstjórnarinnar að færa sig frá þeirri stjórnsýslulegu uppbyggingu og áherslu sem hér hefur verið við lýði, og það á við um miklu fleira en bara dreifstýringuna, t.d. þingræðið, gegnsæið, þá finnst mér eðlilegt að það kæmi fram í stefnu og orðræðu þingmanna. Almenningur í landinu hlýtur að geta farið fram á hreinskilni og að þingmenn ríkisstjórnarinnar komi til dyranna eins og þeir eru klæddir. Það hlýtur að eiga að vera hægt að trúa og treysta því að menn standi við orð sín. Ef ekki, til hvers í ósköpunum erum við þá hérna? Hvaða tilgangi öðrum þjónar þessi stofnun en að vera dýrasta leikhús veraldar?

Mig langar að taka fram aftur að mér þykir miður að við höfum verið að ræða þetta mál í allan dag og allt kvöld í staðinn fyrir að gera eitthvað uppbyggilegt eins og að ræða þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu, sem er brýnt mál sem þjóðin kallar eftir.