144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[23:28]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Mig langar að spyrja hana út í 3. gr. frumvarpsins. Þar segir í b-lið: „Fimm fulltrúar úr hópi alþingismanna skulu kosnir af Alþingi“. Þetta varðar þróunarsamvinnunefndina. Síðan er í skýringunum með greininni talað um mikilvægi þess að þverpólitísk sátt sé um málaflokkinn og að þingmenn hafi beina aðkomu að eftirliti með þróunarsamvinnu.

Nú er það svo að á Alþingi sitja sex þingflokkar. Hvað telur hv. þingmaður að verði þá um þverpólitísku sáttina? Hver ætli verði út undan þegar velja á í nefndina ef þingmennirnir eru fimm en þingflokkarnir sex?