144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[23:36]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Nú er klukkan að verða tólf og mér sýnist þetta vera síðasta andsvar við síðustu ræðu dagsins, eða það fyrra af tveimur sem við hv. þingmaður komum vonandi til með að eiga hér í samtali. Af því tilefni langar mig til að spyrja hv. þingmann hvernig þessi umræða kemur henni fyrir sjónir. Af því að nú er hún varaþingmaður sem hefur ekki haft mikla reynslu af nefndastörfum eða framvindu mála, hefur ekki notið þess að fylgjast með máli koma hér inn, fara í gegnum 1. umr., síðan í gegnum þingnefnd og í gegnum 2. umr. og svo í gegnum atkvæðagreiðslu og svo 3. umr. o.s.frv., eða fylgst með hvernig breytingartillögur verða til. Þetta hefur verið býsna lærdómsríkur dagur geri ég ráð fyrir fyrir hv. þingmann. Mig langar til að biðja hana að deila því með okkur hvernig hún sér þessa umræðu. Ráðherrann hér á bekknum segir frá frumvarpi sem er stjórnarfrumvarp og ríkisstjórnin þar með í heild stendur á bak við og stjórnarflokkarnir. Og eins og hér hefur komið fram höfum við kannski ekki fengið mikið ráðrúm til að skiptast á skoðunum um við þessa sömu stjórnarþingmenn. Mér leikur því forvitni á að vita og bið eiginlega hv. þingmann að deila með okkur gestsauganu, sem hún býr enn þá yfir sem tiltölulega nýr varaþingmaður, gagnvart þeim vinnubrögðum sem hér hafa verið lýðum ljós í dag, hvernig hún sjái þetta og hvernig þessi vinnubrögð koma henni fyrir sjónir?