144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[23:38]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Herra forseti. Já, ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa spurningu. Þetta hefur verið mjög lærdómsríkt og mér finnst þetta allt vera mjög furðulegt. Mér finnst reyndar furðulegast hvernig þingmenn geta haldið heilli hugsun eftir svona langan og erfiðan dag og ég ber mikla virðingu fyrir því.

Ferlið finnst mér skrýtið af því að ég heyri háværar raddir fólksins fyrir utan þetta hús kalla á að hreinlega sé hlustað á það. Ég upplifi loforð svikin, fólk yppir ekki einu sinni öxlum yfir því að það sé að svíkja loforð, eins og þetta skipti engu máli, eins og þetta sé svona — hvað voruð þið að trúa þessu frá byrjun, af hverju eruð þið að taka mark á orðum okkar? Þetta er ykkur að kenna fyrir að taka mark á okkur. Mér finnst þetta því einhvern veginn vera allt saman mjög furðulegt.

Ég hef verið að kynna mér þetta frumvarp í dag og ég er búin að sjá hversu götótt það er og hversu vanhugsað allt þetta er. Ég skil ekki að það sé til umræðu. Mér finnst það vera vanvirðing við kjósendur, við íslensku þjóðin, að taka málið á dagskrá þegar í raun og veru er um miklu brýnni mál að ræða, og þá sérstaklega það að fólk upplifi að það búi í virku lýðræði. Ég upplifi það að þetta kerfi sé dálítið brotið og ég vil eiginlega ekki trúa því, ég er mjög bjartsýn manneskja, og ég vil halda í það að einhver viðreisnarvon sé hérna og við getum bjargað þessu og unnið saman. Það er kannski naíft. Ég get ekki séð að menn hafi mikinn áhuga á að vinna saman. Það virðist vera orðin einhver þrjóska í gangi þar sem (Forseti hringir.) þetta er svona, ja: Hver nær að hafa mesta úthaldið?