144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[23:40]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að deila með okkur þessum vangaveltum. Ég er nefnilega alveg sammála henni. Við höfum öll orðið þess áskynja hér, ég hef að minnsta kosti fyrir hönd Vinstri grænna boðið það fram og það af fullri einlægni að koma að þverpólitískri vinnu um svona dýrmætt mál. Ég deili því með hv. þingmanni að upplifa það að enginn vilji er til slíks samstarfs eða til slíks samtals. Hv. þingmaður talar um að hún finni mjög sterkt fyrir þrá almennings eftir því að á hann sé hlustað og að við eigum í kröftugu og opnu samtali við fólk og við kjósendur í landinu um raunverulega þau mál sem á almenningi brenna. Þess vegna langar mig að spyrja hv. þingmann hvernig hún sjái hlutverk stjórnarandstöðunnar í heimi þar sem ríkisstjórnin hlustar ekki.