144. löggjafarþing — 85. fundur,  25. mars 2015.

störf þingsins.

[15:12]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að gera að umræðuefni hér launakjör starfsmanna í álverum. Nýlega samdi Verkalýðsfélag Akraness við Norðurál um afar hagstæðan kjarasamning fyrir verkamenn í álveri Norðuráls á Grundartanga. Samningurinn sem tekur mið af hækkun launavísitölu er sérstakur að því leytinu til að hann gildir frá 1. janúar sl. og þá fengu starfsmenn 6% launahækkun, auk þess sem þeir fengu 300.000 kr. eingreiðslu, en þessir 600 starfsmenn eru þar með að skapa sveitarfélögum á svæðinu u.þ.b. 28 til 30 milljónir í auknar útsvarstekjur.

Í þessu samhengi eru byrjendalaun á vöktum í álveri Norðuráls á Grundartanga tæpar 500.000 kr. á mánuði. Þeir sem hafa 10 ára starfsreynslu eru að slaga í 600.000 kr. á mánuði. Bak við þessi laun liggja 182 klukkustundir við vinnu. Þessu til viðbótar fá starfsmenn Norðuráls á Grundartanga í orlofs- og desemberuppbætur samtals 340.000 kr. á ári, en á almenna vinnumarkaðnum nema þessar greiðslur 113.100 kr.

Ég varpa þessu hér fram vegna þess að í dag var Silicor að skrifa undir samning um kaup á tækjabúnaði upp á 70 milljarða í nýja verksmiðju sem rís á Grundartanga þar sem 450 manns fá störf, fjölbreytt og vel launuð störf. Í Helguvík erum við að skapa tæp 300 störf við uppbyggingu tveggja sílikonverksmiðja þar sem 300 vel launuð störf munu skapast. Það er þetta sem við erum að horfa upp á, virðisaukinn af rafmagninu okkar hann birtist fólkinu í landinu svona. Hann birtist í góðum launum og góðri afkomu þessa fólks. Það er mikilvægt að við stöndum vörð um þá uppbyggingu áfram.