144. löggjafarþing — 85. fundur,  25. mars 2015.

störf þingsins.

[15:23]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Á síðasta þingi lagði hv. þm. Líneik Anna Sævarsdóttir fyrirspurn fyrir heilbrigðisráðherra um fegrunar- og lýtaaðgerðir á kynfærum kvenna. Svarið sem henni barst var svo sem langt og ítarlegt en efni máls var það að ekki væru til upplýsingar um þetta á Íslandi vegna þess að lýtaaðgerðalæknar neituðu að gefa þær og töldu sig þurfa að gefa meiri upplýsingar en til dæmis kollegar þeirra á Norðurlöndum. Það er í raun svarið sem fékkst við þessari spurningu.

Nú hefur athygli mín og fleiri verið vakin á því af Ljósmóðurfélagi Íslands og Félagi íslenskra fæðinga- og kvensjúkdómalækna að þau hafa þungar áhyggjur af þróun mála á þessum vettvangi og að það komi fram á vef Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar að aðgerðir af þessu tagi séu nær aldrei nauðsynlegar af læknisfræðilegum ástæðum heldur einungis gerðar í fegrunarskyni. Skammtíma- og langtímaáhrif þessara aðgerða séu lítt þekkt og þurfi að rannsaka betur.

Virðulegi forseti. Það er mjög alvarlegt að oft þegar við þingmenn, eins og hv. þm. Líneik Anna Sævarsdóttir gerði hér á síðasta þingi, berum fram fyrirspurnir fáum við í raun engin svör. Þá er oft eins og við höfum engin ráð en fólk í landinu trúir því að það skipti máli að vera á Alþingi og að alþingismenn geti fengið svör sem skipta máli.

Ég vil þess vegna núna, með því að vekja athygli á þessu hér, hvetja okkur sem erum í þessum sal til að íhuga hvernig við getum fengið þau svör við þessari miklu spurningu sem við þurfum um það hve margar svokallaðar lýtaaðgerðir, þ.e. fegrunaraðgerðir, (Forseti hringir.) eru gerðar á kynfærum kvenna, ónauðsynlegar, og að lýtalæknar svari þessari spurningu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)