144. löggjafarþing — 85. fundur,  25. mars 2015.

störf þingsins.

[15:37]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Af því að ég hef ekki tekið það oft þátt í þessum dagskrárlið, um störf þingsins, ákvað ég að nota þetta eina pláss sem autt var núna og kveðja mér hljóðs aftur. Ég vildi hafa þetta sem skýringu á því af hverju ég kæmi hér aftur í ræðustól.

Nú vil ég gera að umtalsefni ástandið á vinnumarkaði, þ.e. kjarasamninga og það að það lítur út fyrir að fyrsta verkfallið skelli á í fyrramálið, hjá tæknimönnum Ríkisútvarpsins þannig að Ríkisútvarpið – sjónvarp liggi niðri, að mig minnir fjögurra daga verkfall. Ástandið er mjög erfitt á vinnumarkaðnum, það er mikil gjá á milli samningsaðila. Verkalýðshreyfingin gerir eðlilega kröfur um mikla hækkun lágmarkslauna, upp í 300 þús. kr., sem er mikið vegna þess hve lág lágmarkslaunin eru í dag, þ.e. 210–220 þús. kr. Það er þó að mínu mati einn mesti smánarblettur á þessu þjóðfélagi, þ.e. þessi lægstu laun sem auðvitað fara svo líka inn í launagreiðslur til lífeyrisþega og öryrkja.

Í morgun las ég um það að ríkisstjórnin er loksins að undirbúa eitthvert útspil inn í kjarasamninga til aðila vinnumarkaðarins til að liðka fyrir kjarasamningum. Í mínum huga er það afar nauðsynlegt. Í svona erfiðri stöðu þarf ríkisvaldið að koma fram. Það hefur verið talað um húsaleigubætur og að mig minnir vaxtabætur. Það sem ég ætla að gera að umtalsefni og hvetja ríkisstjórnarflokkana til er að taka undir það sjónarmið sem kom fram í setningarræðu formanns Samfylkingarinnar, Árna Páls Árnasonar, á nýliðnum landsfundi okkar, og að mig minnir var líka ályktað um, þ.e. að ríkisvaldið hugleiði skattaívilnanir til þeirra sem lægstu launin hafa í dag. Það má þess vegna vera sólarlagsákvæði til einhverra ára til að koma til móts við atvinnulífið (Forseti hringir.) til að geta lyft lægstu launum upp í þær 300 þús. kr. sem launþegahreyfingin gerir kröfu um. Þessu vildi ég koma á framfæri hér í seinni ræðu minni um störf þingsins (Forseti hringir.) vegna þess að þetta er eitt brýnasta vandamálið sem þarf að leysa í þjóðfélaginu í dag.