144. löggjafarþing — 85. fundur,  25. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[15:56]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Þar leitaðist hv. þingmaður við að finna fagleg rök fyrir því að það ætti að fara þá leið að setja Þróunarsamvinnustofnun inn í ráðuneytið. Hv. þingmanni gekk illa að finna þau rök og tíndi til ýmis rök fyrir því að það væri ekki ráðlegt. Hefur hv. þingmaður hugleitt hvort það geti verið að það séu alls ekki fagleg rök fyrir því að fara þessa leið, heldur séu þau fjárhagsleg? Í fyrsta lagi er búið að skera mjög mikið niður í utanríkisráðuneytinu. Mest var skorið árið 2014 í því ráðuneyti, það var heilmikið umfram önnur ráðuneyti, þannig að það hefur þurft að glíma við það að ná endum saman í ráðuneytinu og ná yfir þau verkefni sem því hafa verið falin.

Auk þess er ein af þessum 111 tillögum hagræðingarhópsins einmitt að skoða Þróunarsamvinnustofnun og tengslin við ráðuneytið. Eftir þessa umræðu hér í gær hallast ég að því að þarna sé um fjárhagslegar ástæður að ræða, að þessi leið sé farin fyrir ráðuneytið en að hún sé ekki fagleg. Ég spyr hv. þingmann hvort hún sé sammála því.