144. löggjafarþing — 85. fundur,  25. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[15:58]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Já, það er stóra spurningin hvort verið sé að reyna að þróa áfram á faglegum nótum starfsemi svo mikilvægrar stofnunar. Eða eru menn bara í debet- og kredithugleiðingum um hvernig megi púsla betur saman því fjármagni sem fer yfir höfuð í utanríkisþjónustuna? Ég er farin að halda að það sé megintilgangurinn með þessu, því miður, vegna þess að mér finnst vanta allan rökstuðning fyrir því að gera þetta þessarar stofnunar sjálfrar vegna og þeirra verkefna sem hún á að vinna.

Mér finnst ekki koma nægur rökstuðningur til þess og er því ansi hrædd um að þetta sé það sem hv. þingmaður nefndi, hluti af hagræðingarkröfum hagræðingarhóps ríkisstjórnarinnar, að þarna hafi menn talið að það væri eitthvað í að sækjast og sárabót fyrir mikinn niðurskurð hjá utanríkisráðuneytinu árið 2013. Þá væri hægt að nýta þetta fjármagn betur innan ráðuneytisins. Hvort það gagnist Þróunarsamvinnustofnun til framtíðar, ég er því miður ansi hrædd um að það verði ekki, það muni þvert á móti bitna á þeirri starfsemi sem slíkri enda tel ég stjórnsýslulega mjög óvandað að þetta sé allt undir einum hatti. Framkvæmdarvaldið á ekki að draga til sín stofnanir sem eiga að vera sjálfstæðar, eftirlitshlutverk og annað. Hver á að sjá um eftirlit á sjálfu sér í þessu tilfelli? Verður það nokkurn tímann trúverðugt?