144. löggjafarþing — 85. fundur,  25. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[16:03]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mér fannst mjög athyglisvert að hlusta á skoðanaskiptin sem urðu millum tveggja þingmanna áðan. Það kom fram að í upphafi hefði verið að finna á meðal 111 hagræðingartillagna úr hinum alræmda og margfræga niðurskurðarhópi stjórnarliðsins að það ætti að skoða sérstaklega tengsl Þróunarsamvinnustofnunar og utanríkisráðuneytisins. Ég er eiginlega sannfærður um það eftir þessa umræðu að þá, á þeim tíma, var tekin ákvörðun um það í þessum hópi að leggja stofnunina niður. Það var ekki hægt að segja það því að það þurfti að búa til einhvers konar rökfræðilegan grundvöll fyrir því. Hann var ekki sterkur en hann kom fram og hefur að mínu viti verið tættur í spað í þessari umræðu. En líkast til var ákveðið strax í upphafi stjórnarinnar að þetta væri stofnun sem auðvelt væri að slá af. Það held ég að sé mergurinn málsins. Þess vegna kemur hæstv. utanríkisráðherra sem var tekinn dálítið rækilega í karphúsið einmitt af niðurskurðarnefndinni fyrr á sínum ferli hingað og á erfitt með að verja þennan vonda málstað. Lái honum hver sem vill. Þetta er nú mín skoðun.

Hv. þingmaður gerði eftirlit að umtalsefni. Menn hafa auðvitað velt fyrir sér hver eigi þá að hafa eftirlit með ráðuneytinu ef allt er komið inn til þess. Ja, það hefur ekki verið hugsað til þrautar. Hæstv. utanríkisráðherra velti í andsvörum hér í dag upp tveimur möguleikum, ekki einum heldur tveimur, sem sýnir að ekki hefur ráðuneytið hugsað það til þrautar. Hann talaði um Ríkisendurskoðun, hann talaði líka um sérstaka skrifstofu innan ráðuneytis sem ætti að hafa eftirlit með ráðuneytinu sjálfu.

Þá langar mig að spyrja hv. þingmann hvort hún hafi lesið 8. gr. þessa frumvarps þar sem fjallað er um eftirlit. Þar er ekki mikið sagt. Hvað gera þingmenn þegar þeir lesa jafn óskiljanlegt og illa útfært ákvæði og það? Nú, þeir fara í greinargerðina og hvað stendur þar? Þar stendur: Greinin þarfnast ekki skýringa. Menn vita sem sagt ekkert (Forseti hringir.) hvar eftirlitið á að liggja, hafa ekki hugsað út í það og koma með frumvarpið þar sem eitt af mikilvægustu atriðunum er gersamlega í lausu lofti.