144. löggjafarþing — 85. fundur,  25. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[16:11]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka þessa umræðu eins langt og hún nær en það er ekki laust við að maður verði hálfdapur yfir stöðu utanríkismála landsins og hvernig þau ber núna að viku eftir viku í þinginu. Það verður að segja það eins og það er að það er ekki mikill sómi eða mikil reisn yfir þeim málarekstri nú í annað sinn á örstuttum tíma. Við höfum því miður fengið að fylgjast með því undanfarnar vikur hvernig reynsluleysi ráðherra ríkisstjórnarinnar, þá auðvitað ekki síst hæstv. utanríkisráðherra, hefur orðið til þess að menn fóru í leiðangur um bréfaskriftir til útlanda sem voru fordæmalaus aðför að fullveldi Alþingis, alveg ótrúleg gjörð í raun og veru í utanríkismálum þjóðarinnar, og þannig að þeim staðið að það var enginn skilningur á því sem verið var að gera hjá samstarfsþjóðum okkar, enginn skilningur á því heldur í ríkisstjórninni eða stjórnarmeirihlutanum og því síður hjá stjórnarandstöðunni í þinginu. Satt best að segja var enginn stuðningur við athafnir utanríkisráðherrans í málinu. Hann virtist einfaldlega vera skilinn einn eftir á flæðiskeri af félögum sínum eftir að hafa fengið einhvers konar gult ljós á það að fá að senda frá sér bréf sem hann skildi ekki sjálfur, viðtakandinn skildi því síður og hinir ráðherrarnir í ríkisstjórninni studdu ekki að neinu leyti. Sá leiðangur varð náttúrlega tilefni aðhláturs og undrunar á alþjóðavettvangi, breytti í sjálfu sér efnislega ekki neinu og skilaði okkur engu nema vantrausti á milli þings og ríkisstjórnar eftir þá hörmulegu framgöngu sem í því máli var.

Nú sjáum við síðan bara beint í kjölfarið annan svona leiðangur sem sannarlega er engin alvarleg aðför að fullveldi Alþingis, þetta er auðvitað stjórnarfrumvarp til laga um breytingu á lögum sem kemur inn í þingið og fær þinglega meðferð, sem betur fer. Það er ekki reynt að leggja Þróunarsamvinnustofnun niður með bréfaskriftum úr utanríkisráðuneytinu, en það virðist hins vegar jafn ljóst að tildrögin eru á sama grundvelli, kannski fyrst og fremst reynsluleysi sem verður til þess að málið rekur á fjörur Alþingis. Ítrekað hafa menn reynt að sannfæra ýmsa utanríkisráðherra um að flytja þetta mál en það er hæstv. núverandi utanríkisráðherra sem lætur glepjast til þess að koma með þetta inn í þingið, jafn vont og það er í alla staði. Ég get farið betur yfir það síðar í ræðunni.

Það sem síðan vekur athygli er að rétt eins og í bréfaskriftamálinu er utanríkisráðherra algerlega einn í málinu. Það virðist enginn stuðningur við þessar fyrirætlanir þó að honum hafi verið leyft í ríkisstjórn að leggja þetta fram hér. Engir ráðherrar hafa lýst stuðningi við leiðangurinn. Forusta utanríkismálanefndar er ýmist fjarverandi eða vill ekki lýsa neinum stuðningi við málið og vandséð að það sé meirihlutastuðningur við það í hv. utanríkismálanefnd, enda gengur það gegn þeirri góðu samstöðu sem menn lögðu áherslu á, m.a. þegar núverandi hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson, sat í utanríkismálanefnd og við náðum góðri þverpólitískri samstöðu um það með hvaða hætti þeim málum skyldi skipað. Hið sama á auðvitað við um metnaðarfulla áætlun um aukin framlög til þróunarsamvinnu sem við náðum hér fyrir ekki allt of mörgum árum en efnahagshrunið varð því miður til þess að við gátum ekki staðið undir.

Það er í raun alveg ótrúlegt að það sé hægt að klúðra málaflokki eins og þróunarsamvinnu Íslands við aðrar þjóðir með þeim endemum sem hæstv. ráðherra hefur tekist. Í sjálfu sér ætti þróunarsamvinnan einvörðungu að vera jákvætt mál. Þetta er ákvörðun okkar um að láta til okkar taka við að aðstoða aðrar þjóðir. Þetta varðar ekki opinbera þjónustu eða lögbundnar skyldur til að veita ákveðna þjónustu eða með nokkrum hætti það sem umdeilt getur verið í innanríkispólitík. Þetta er málaflokkur sem gengur kraftaverki næst að einn ráðherra geti á innan við hálfu kjörtímabili klúðrað. En merki Framsóknarflokksins í þessu efni eru satt að segja ekki sérlega rismikil. Eftir að hér náðist samstaða í öllum flokkum um metnaðarfull áform um að auka framlög til þróunarsamvinnu er það formaður fjárlaganefndar, þingmaður Framsóknarflokksins, Vigdís Hauksdóttir, sem flaggar því að það eigi að draga úr þessum útgjöldum, þ.e. að við eigum ekki að leggja þó þetta litla sem við leggjum af mörkum til fátækustu þjóða heims þar sem sannarlega getur mikið orðið úr fjármununum við að gera gríðarlega mikla hluti fyrir margt fólk. Þó að við eigum við okkar efnahagserfiðleika að stríða eigum við engu að síður gríðarlegar náttúruauðlindir og erum blessunarlega í hópi þeirra þjóða í heiminum sem efnaðastar eru. Við veiðum hátt í tíu kíló af fiski fyrir hvert einasta mannsbarn í landinu á hverjum einasta degi vikunnar allan ársins hring. Meðan við höldum því mikla forskoti er tryggt að við búum við svo mikla velsæld að við hljótum að leggja áherslu á þróunarsamvinnu, á það að láta af hendi rakna og miðla af því sem við höfum líka lært, m.a. á sviði sjávarútvegsins, í umhverfisvænni orku og öðru því sem getur stuðlað að friði og framförum í heiminum öllum. Þó að við séum lítil þjóð eigum við að vera stór í þessum efnum. Enn þá dapurlegra verður það svo þegar hæstv. utanríkisráðherra hefur þær helstar hugmyndir í þróunarsamvinnu að leggja niður Þróunarsamvinnustofnun Íslands.

Ef þetta er það sem Framsóknarflokkurinn vill standa fyrir í þessum málaflokki, að draga úr framlögum til þessara verðugu mála og leggja niður stofnunina sem einbeitir sér að þeim, er kannski ekki skrýtið þó að hæstv. utanríkisráðherra sé býsna einn í þessu máli eins og í bréfaskriftunum fyrr í mánuðinum. Þetta er ekki stefna sem nokkur vill sérstaklega styðja eða stefna sem líklegt er að hér geti tekist þverpólitísk samstaða um.

Það er alveg ótrúlegt að ráðherra sem situr í fullum friði með málaflokk eins og þróunarsamvinnu sem engar deilur eru um, ráðherra sem situr með þennan málaflokk óumdeildan við þær aðstæður en í ríkisstjórn sem á við ramman reip að draga, býr við miklar óvinsældir og hefur þurft að taka á sig mörg höggin á stuttum tíma, og flest verðskulduð raunar, skuli beinlínis hafa frumkvæði að því að efna til deilna um þróunarsamvinnu. Þá spyr maður eiginlega: Eru engin takmörk fyrir því hve miklum friði um málaflokka og starfi að málaflokkum í landinu þessari ríkisstjórn ætlar að takast að spilla? Er ekki einu sinni hægt að vinna að brauði handa hungruðum heimi í sæmilegum friði hér í landinu fyrir þessari ríkisstjórn? Eða hvað rekur hæstv. utanríkisráðherra til að fara fram með ágreiningsmál í þessum málaflokki? Hvers vegna vill hann segja í sundur þann frið sem tókst að skapa um þessa starfsemi og þá breiðu samstöðu sem tókst að skapa um hana? Það er auðvitað mjög mikilvægt fyrir málaflokkinn að hér standi allir flokkar á Alþingi þrátt fyrir þær miklu og hörðu deilur sem verið hafa, ekki síst í kjölfar efnahagshrunsins, að menn stæðu þó að minnsta kosti allir sem einn saman um þennan mikilvæga málaflokk. Það eitt og sér er mikilvægt fyrir þróunarsamvinnuna og þess vegna er til ills fyrir málaflokkinn allan að ráðherrann skuli með þessari tillögu spilla þeirri góðu samstöðu sem um hann var.

Þessi tillaga er vond af mörgum öðrum ástæðum. Við höfum tiltölulega nýlega farið í gegnum miklar þrengingar. Kannski hefur okkur ekki tekist að læra allt það af þessum þrengingum sem hægt er en við eigum hrós skilið fyrir eitt, ég held að við getum nærri því öll verið sammála um að rannsóknarskýrsla Alþingis var gott frumkvæði af hálfu þingsins. Þar fékk hún færustu sérfræðinga okkar til þess að setjast yfir það með hvaða hætti við hefðum átt að standa betur að málum í stjórnmálunum, stjórnsýslunni, lagaumgjörðinni, viðskiptalífinu og alþjóðatengslum okkar. Við fengum skýrslu sem mikil samstaða var um, skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis í níu bindum, bæði sem fór í gegnum það sem aflaga hafði farið og líka í gegnum það sem við þyrftum að laga.

Og hvað var það sem við þurftum að laga?

Ég vil nefna tvo af veigamestu þáttunum sem rannsóknarnefnd Alþingis lagði áherslu á að við þyrftum að laga. Við þurftum að draga úr ráðherraræði og við áttum að efla eftirlitshlutverk vegna þess að of mikið ráðherraræði, alvald einstakra fagráðherra í sínum málaflokkum, annars vegar og hins vegar skortur á eftirliti og aðhaldi með stjórnsýslunni hafi verið meginágallar hjá okkur sem ollu því að við misstum stjórnina og að hér varð hrun. Hvað er verið að gera með þessu máli eftir að við höfum hér samþykkt 63:0, með 63 samhljóða atkvæðum, þingsályktun um að fara að þeim tillögum og áherslum sem lágu fyrir í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og gera hér bragarbót á? Jú, þá kemur hæstv. utanríkisráðherra inn í þingið eftir að hafa greitt atkvæði með þingsályktunartillögunni sem byggð var á skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og leggur til að vald hans verði aukið verulega með því að flytja þessa stofnun bara inn í ráðuneytið, Þróunarsamvinnustofnun Íslands, og auka með því vald sitt og ráðuneytisins og um leið, eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson rakti ágætlega áðan, með sömu aðgerð draga úr því mikilvæga eftirliti sem þarf að vera með allri starfsemi og þá sannarlega ekki síst þróunarsamvinnu. Það þarf sannarlega eftirlit með þróunarsamvinnu því að þar skiptir miklu máli með hvaða hætti fjármunum er varið, hvernig stefna er mörkuð, hvernig áætlanir eru gerðar, því að í þróunarsamvinnu jafnvel fremur en öðrum málaflokkum sem við störfum að getur annars vegar orðið mikið úr þeim fjármunum sem við leggjum í það og það getur orðið afskaplega lítið og jafnvel minna en ekki neitt. Vinni menn að röngum verkefnum geta þau gert meira ógagn en gagn. Öll þekkjum við dæmi um verkefni þar sem allt of mikið hefur farið í stjórnunarkostnað og annan kostnað en allt of lítið til þeirra sem raunverulega eiga að fá aðstoðina. Með því að taka þetta inn í ráðuneytið getur það ekki lengur haft eftirlit með þessari starfsemi. Hér er verið að breyta út frá þeirri sterku hefð sem við þó höfum haft og hefur helst verið til þess að draga úr miklu ráðherraræði í íslensku samfélagi, þ.e. sterkar sjálfstæðar stofnanir utan ráðuneytanna. Það er ekki skynsamlegt (Forseti hringir.) að sameina allar ríkisstofnanir inn í fagráðuneyti sín.