144. löggjafarþing — 85. fundur,  25. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[16:26]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans. Ég get tekið undir margt af því sem þar kom fram. Það sem ég spyr mig einna helst að í tengslum við þetta frumvarp varðar hinn faglega grundvöll ákvörðunarinnar. Við erum vissulega með skýrslu Þóris Guðmundssonar sem hér hefur verið vitnað til, en við erum líka með eldri skýrslur eins og Sigurbjargar Sigurgeirsdóttur sem mælir með öfugri leið. Það er því undir okkur þingmönnum komið að taka ákvörðun út frá skynsemi og hyggjuviti.

Mig langar að spyrja hv. þm. Helga Hjörvar um tvennt, annars vegar: Man hann eftir einhverjum dæmum um að fagstofnun sé með þessum hætti sameinuð ráðuneyti? Það er vissulega ansi óvenjuleg tilhögun eftir því sem ég kemst næst, miðað við almenna þróun í stjórnsýslu. Eins og hv. þingmaður benti á erum við í þeim vanda að eftirlitsstefnumótun og framkvæmd eru komin á eina hendi. Þekkir hv. þingmaður þess einhver dæmi eða rekur hann minni til einhvers sambærilegs?

Hitt sem mig langar að spyrja hv. þingmann um á stuttum tíma varðar samskiptin við þingið, því að eins og ég hef skynjað umræðuna, sem að vísu er nokkuð einsleit því að hv. þingmenn stjórnarmeirihlutans hafa kosið að taka ekki þátt í henni, eru menn sammála um að mikilvægt sé að styrkja aðkomu þingsins að málaflokknum.

Hvernig sér hv. þingmaður fyrir sér bætta aðkomu þingsins? Telur hann það vera rétta leið sem lögð er til í frumvarpinu þar sem lagt er til að samráðsnefnd fundi að lágmarki tvisvar á ári með þingmönnum, aðilum atvinnulífsins, aðilum háskólasamfélagsins, eða sér hann einhverjar aðrar leiðir til þess að bæta aðkomu þingsins? Að minnsta kosti eru þeir hv. þingmenn sem hér hafa talað mér sammála um að þar sé úrbóta þörf. Það væri spennandi að vita hvað þingmönnum (Forseti hringir.) stjórnarmeirihlutans finnst, en ég spyr hv. þingmann um þetta.