144. löggjafarþing — 85. fundur,  25. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[16:28]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er nú fyrst að segja um síðari spurninguna, aðkomu þingsins, að ég held að þar þurfi að vera miklu fastar um búið og aðkoma þingsins þarf að vera sterkari. Það væri út af fyrir sig hægt að vinna með það í þingnefndinni þó að þingið sjálft þyrfti að útfæra úrbætur á því. En það er fyrri spurning hv. þingmanns sem afhjúpar málið í raun og veru, því að hinn faglegi grundvöllur bara er ekki fyrir hendi. Þetta mál er svo vanbúið að ráðherrann treystir sér ekki til að bíða eftir niðurstöðum úr þeirri skýrslu sem Alþingi hefur beðið um um málið, og heldur ekki eftir úttekt Ríkisendurskoðunar, sem væri þó eðlilegur faglegur grunnur fyrir ákvarðanatökuna. Ég held að vandamálið kristallist einmitt í þátttökuleysi stjórnarmeirihlutans hér í umræðunni því að sú staðreynd að ráðherrann kemur einn að þessari umræðu afhjúpar að það vantar ekki bara alla faglega umræðu um málið, það á ekki bara eftir að skapa einhverja samstöðu úti í samfélaginu og á milli flokka, málið virðist bara vera algjörlega órætt á milli stjórnarflokkanna og innan stjórnarflokkanna því að það virðist enginn þingmaður, hvorki úr Framsóknarflokknum né Sjálfstæðisflokknum, vera samskipa hæstv. ráðherra í þessu máli eða tala hér fyrir málinu. Úr því að ráðherrann hefur ekki unnið málinu fylgi í sínum eigin þingflokki, ekki í stjórnarmeirihlutanum, er náttúrlega enn þá lengra frá því að hann hafi skapað þá þverpólitísku samstöðu og þann faglega grundvöll og sátt í samfélaginu almennt og í þeim hópum sem starfa að þessum málefnum sem nauðsynleg eru að mínu viti.