144. löggjafarþing — 85. fundur,  25. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[16:32]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég sé nú illa fyrir mér að unnt sé á þeim fáu dögum sem eftir eru af vorþinginu að vinna með þetta vanbúna mál þannig að gagn sé að. Það hefði náttúrlega verið best að eyða ekki tíma þingsins í 1. umr. um það, en fyrst hún er hafin er kannski vert að ljúka henni þrátt fyrir allt og leyfa málinu að ganga til nefndar og senda það út til umsagnar til að fá viðbrögð við því. En ég hygg að ekki eigi að hreyfa málinu meira en það að sinni. Ráðherrann getur síðan skoðað ferlið og íhugað hvort hann telji ástæðu til þess að reyna aftur að henda svona sprengju inn í þennan málaflokk sem góð samstaða hefur verið um. Ég held að ef hann hugsi málið betur næst og reyni að læra af reynslunni muni þetta mál ekki koma aftur í þingið enda illa úr garði gert.