144. löggjafarþing — 85. fundur,  25. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[16:36]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að halda áfram að lesa aðeins úr þessu frumvarpi. Í markmiði lagabreytinga kemur fram að tilgangur heildarskipulags þróunarsamvinnu Íslands sé að koma stefnu og markmiðum stjórnvalda í framkvæmd á sem áhrifaríkastan hátt fyrir haghafa. Með því að færa framkvæmdina í eina hendi sé verið að einfalda skipulagið.

Mér dettur í hug hvort þetta sé vandamálið, hvort það sé einhver skipulagsvandi, hvort þeir eigi við það vandamál að stríða þarna að kunna hreinlega ekki að skipuleggja nógu vel, sem er kannski algengur íslenskur vandi. Væri hægt að bregðast við þeim vanda á einhvern annan hátt en með þessari róttæku aðgerð?