144. löggjafarþing — 85. fundur,  25. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[16:38]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þingmanninum ræðuna og þær vangaveltur sem hann var með. Það er viðamikil og ágætisskýrsla sem er undir þessu frumvarpi þótt hún sé auðvitað einsleitt gagn. Ég hefði sjálf gjarnan viljað hafa fleira þar undir, ég held það væri best fyrir málið, en skýrslan tekur á bæði skipulagi og innihaldi þróunarsamvinnunnar. Ég hef tekið undir með þeim hjá Þróunarsamvinnustofnun sem gerðu athugasemdir við skýrsluna og fannst skorta á svokallaða rannsókarspurningu, þ.e. hvaða markmiðum skuli ná með tillögunum, og hvaða aðferðafræði skyldi beitt til að svara því hvort þau hefðu náðst. Eins og komið hefur fram í máli okkar allra hér hefur Þróunarsamvinnustofnun — þau hafa verið mælanleg og vel sýnileg. Ég spyr þingmanninn hvort hann taki undir þær athugasemdir, hvort hann sé sammála þeim.

Við vorum að tala um mannauðinn, fólkið sem starfar þarna og þingmaðurinn nefndi það sem lærst hefði á vettvangi. Nú verða stöður verkefnastjóra væntanlega lagðar niður, þær sem hafa verið á vettvangi, og eru þær nú þegar orðnar heldur fáar. Það eru uppi áhyggjur af því að varnir gegn spillingu og öðru slíku verði erfiðari þegar fólk fjarlægist staðinn. Mig langar að spyrja hvort þingmaðurinn taki undir það með mér.

Það er hugmynd um að fækka löndum enn frekar, þau eru núna þrjú. Telur hv. þingmaður (Forseti hringir.) að enn frekari fækkun gæti orðið erfið, ef til dæmis þyrfti að loka einu landinu?