144. löggjafarþing — 85. fundur,  25. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[16:41]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni hvað skýrslunni viðvíkur. Ég vil þó segja um skýrsluna að hún er unnin af aðila sem hefur reynslu úr þróunarsamvinnunni og hefur dýrmæta reynslu þaðan, en hún er aðeins eitt sjónarhorn á málið úr einni átt. Það eru einfaldlega önnur mikilvæg sjónarmið sem eru öndverð því og verkefni ráðherrans er auðvitað að leiða slík sjónarmið fram og stuðla að umræðu og úrvinnslu á ólíkum hugmyndum, sem með vinnu og alúð geta hugsanlega leitt til þess að menn sameinast um skref sem mætt geta sem flestum sjónarmiðum og tryggt sem besta samstöðu. Ég held að þannig sé eðlilegt að ætlast til þess að ráðherrar vinni að mikilvægum málaflokkum sem áhersla er lögð á að sé góð pólitísk samstaða um, en hendi því ekki bara inn í þingið eins og þeir henda bréfum til útlanda, að því er virðist án þess að hugsa nokkuð um framhaldið eða til hvers það leiði eða yfir höfuð hugsa nokkurn hlut.