144. löggjafarþing — 85. fundur,  25. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[16:42]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eitt af því sem ég ræddi í gær og ekki öllum líkaði var að mér hafa ekki fundist ráðuneyti sérlega skilvirk, án þess að ég ætli að gagnrýna starfsmenn ráðuneyta eða eitthvað slíkt. Nú hefur verið fækkað töluvert í ráðuneytum og var skorið eftirminnilega niður á ögurstundu við lok fjárlagagerðar, ekki þeirrar síðustu heldur þar áður. Það hefur því fækkað enn frekar. Þetta eru mál sem þarf að leysa tiltölulega fljótt en ekki hægar, eins og ég mundi hafa áhyggjur af að gerðist þegar þetta væri komið fjær vettvangi.

Ég ræddi í gær að verkefni utanríkisráðuneytisins væri fyrst og fremst hagsmunagæsla fyrir Ísland gagnvart öðrum ríkjum. Hér erum við að fjalla um hagsmuni fátækasta fólksins í heiminum og á forsendum þeirra fátæku en ekki Íslendinga. Mér finnst það sjónarhorn vera svolítið ráðandi í skýrslunni. Ég spyr hvort þingmaðurinn telji (Forseti hringir.) svo vera eða hvort hann hafi ekki áhyggjur af því.