144. löggjafarþing — 85. fundur,  25. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[16:44]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef út af fyrir sig ekki áhyggjur af því að ekki sé unnið kappsamlega að málum í ráðuneytunum. Það held ég ekki að sé áhyggjuefni heldur fremur það sem hv. þingmaður nefndi í fyrra andsvari sínu, sem er þegar fjárframlög eins og þessi eru færð nær hinu pólitíska valdi, nær ráðherranum. Það eykur auðvitað á hættu á spillingu, sérstaklega í málaflokki eins og þessum þar sem nokkuð svigrúm er til að veita fjármuni til félagasamtaka, fyrirtækja og einstaklinga í verkefni sem stundum er erfitt að meta og stundum er erfitt að hafa eftirlit með. Þegar við höfum nýleg dæmi, reyndar úr öðru ráðuneyti en þó í Stjórnarráði Íslands, um að gerðir séu samningar um hundruð milljóna króna við einhverja vildarvini er náttúrlega full ástæða til að hafa áhyggjur af því að við séum ekki nægilega þroskað lýðræðissamfélag til að vogandi sé (Forseti hringir.) að færa slíka fjármuni nær pólitískt skipuðum ráðherra en nú er.