144. löggjafarþing — 85. fundur,  25. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[16:45]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Við erum að ræða hér um að renna Þróunarsamvinnustofnun inn í utanríkisráðuneytið, stofnun sem hefur starfað frá árinu 1981 og hefur getið sér gott orð fyrir ýmis þróunarverkefni sem hún hefur staðið fyrir.

Ég vil eins og aðrir hv. þingmenn sem hafa talað á undan mér reyna að átta mig á hvernig standi á því að verið er að taka þá stofnun og meðhöndla hana með þessum hætti. Til að gera það, herra forseti, vil ég grípa niður í greinargerð með frumvarpinu á þremur stöðum af því að ég er að reyna að átta mig á því hvert sjónarmið ráðuneytisins er sem hefur síðan verið gagnrýnt heilmikið. Ég ætla að byrja á því.

Á bls. 5 í frumvarpinu stendur eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Þrátt fyrir breytingar á síðastliðnum árum má ná frekari árangri með því að vinna að þróunarsamvinnu með heildrænni hætti og ljóst er að enn er töluvert svigrúm til að auka samhæfinguna. Með því að hverfa frá tvískiptingu, eins og hún er í dag, má ná meiri krafti, sveigjanleika og samhæfingu í málaflokknum. Í aðdraganda aðildar Íslands að þróunarsamvinnunefnd Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD), DAC, árið 2013 vann fagteymi á vegum nefndarinnar sérstaka rýni á umgjörð alþjóðlegrar þróunarsamvinnu Íslands sem sýndi fram á burði Íslands til aðildar. Niðurstöður úttektarinnar voru jákvæðar og kom þar fram að þróunarsamvinna Íslands byggðist á traustum og faglegum grunni.“

Síðan er fjallað um ýmislegt í þessari greiningu, þó að í meginatriðum hafi niðurstöðurnar verið mjög jákvæðar.

„Í kjölfar rýninnar, og ábendinga sem þar komu fram, var utanaðkomandi sérfræðingi, Þóri Guðmundssyni, falið að gera greiningu á aðferðafræði, skipulagi og fyrirkomulagi á framkvæmd Þróunarsamvinnu Íslands. Honum var falið að skila tillögum og ábendingum um umbætur og breytingar, væri þeirra þörf að hans mati. Tekið var fram að mikilvægt væri að koma á skipulagi þar sem gert væri ráð fyrir markvissri stefnumörkun, stefnumótun og framkvæmd annars vegar og skipulögðu eftirliti og innra aðhaldi hins vegar.“

Á þeirri skýrslu er frumvarpið síðan byggt og vísað er í skýrsluna þegar rök eru færð fyrir því að fara þá leið sem frumvarpið mælir fyrir.

Síðan segir á bls. 8 í greinargerð með frumvarpinu, með leyfi forseta:

„Með því að öll þróunarsamvinna sé á einni hendi er unnt að setja aukinn kraft í verkefnin, efla sveigjanleika og samhæfingargetu og koma í veg fyrir skörun á stefnumótun og framkvæmd. Þá er einnig dregið úr óhagræði og tvíverknaði í rekstri og stjórnun sem, þegar til lengri tíma er litið, leiðir til aukinnar hagkvæmni. Einfaldara og markvissara skipulag eykur líkur á að markmið og áherslur Íslands á sviði alþjóðlegrar þróunarsamvinnu nái fram að ganga og skili sér í skilvirkari þróunarsamvinnu.“

Virðulegi forseti. Mér finnst mjög mikilvægt að við högum allri starfsemi á vegum ríkisins þannig að hún sé skilvirk og að ekki sé tvíverknaður í gangi o.s.frv. Við fyrstu sýn telur maður þetta vera svona þokkalega góð markmið, en þegar farið er að skoða hvernig menn komast að þessari niðurstöðu fara að renna á þá tvær grímur.

Þegar hæstv. utanríkisráðherra var að boða komu frumvarpsins inn á þingið var haft eftir honum í fjölmiðlum, með leyfi forseta:

„Það er búið að vinna margar skýrslur um hvernig best sé að halda á þróunarsamvinnu. Þær hafa allar komist að þeirri niðurstöðu að það sé rétt að sameina þetta inn í ráðuneytin. Það sem ég tel að við fáum út úr því er sterkari þróunarsamvinnudeild, eða svona þróunarsamvinnustofnun sem við verðum með í ráðuneytinu þar sem marghliða og tvíhliða eru að vinna saman enn þá betur en þeir gera í dag, þótt það sé ágætt samstarf á milli.“

Þarna segir hæstv. utanríkisráðherra að það séu bara allar skýrslur sem bendi til þess að þetta sé besta leiðin. Þegar það er gert þá fara nú að heyrast aðrar raddir.

Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir, lektor í stjórnsýslufræðum við stjórnmáladeild Háskóla Íslands, segir að hæstv. utanríkisráðherra fari með rangt mál hvað varðar þau rök sem hann setur fram varðandi ákvörðun sína um að leggja niður Þróunarsamvinnustofnun í núverandi mynd. Hún talar mjög skýrt og fullyrðir þetta. Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir gerði einmitt úttekt á starfi Þróunarsamvinnustofnunar árið 2008 og hún segir að tillögur hæstv. utanríkisráðherra um að leggja stofnunina niður í núverandi mynd sé stórt skref aftur á bak. Hún bendir á að í stjórnsýslu eigi að leggja áherslu á aðskilnað ýmissa stjórnsýsluhátta á borð við stefnumótun, framkvæmd og eftirlit.

Rætt hefur verið einmitt um 8. gr. frumvarpsins hér fyrr í dag og einnig í umræðunum í gær, en 8. gr. hljóðar svo:

„2. málsl. 8. gr. laganna orðast svo: Framkvæmd stefnu stjórnvalda um alþjóðlega þróunarsamvinnu, sbr. 5. gr., skal háð reglulegu eftirliti og úttektum óháðra aðila.“

Þegar við flettum að skýringum við hverja grein þá er skýringin við 8. gr. ansi rýr, því að þar stendur, með leyfi forseta:

„Greinin þarfnast ekki skýringa.“

Þar er ég ósammála, eins og aðrir hv. þingmenn sem hér hafa talað fyrr í dag, því að við verðum að fá skýringu á þessu. Með því að taka Þróunarsamvinnustofnun inn í ráðuneytið er framkvæmdin komin inn í ráðuneytið, sem á síðan að hafa eftirlit með stofnuninni, þannig að þarna stangist hlutirnir á.

Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir segir í viðtali við fjölmiðla að hæstv. utanríkisráðherra sé að „boða mikla miðstýringu með þessu sem og ógegnsæi í stjórnsýslu, sem er ekki í anda nútímalegra stjórnarhátta og alls ekki í anda stefnu samstarfsflokksins,“ segir Sigurbjörg á einhverjum stað. Þannig að hún er orðlaus yfir þessum breytingum sem frumvarpið er að boða.

Eins og komið hefur fram í umræðum um málið í dag og í greinargerð með frumvarpinu byggir hæstv. ráðherra ákvörðun sína á meginniðurstöðu skýrslu Þóris Guðmundssonar um fyrirkomulag þróunarsamvinnu sem birt var í sumar. Starfsmenn Þróunarsamvinnustofnunar gerðu alvarlegar athugasemdir við skýrsluna og sögðu tillögur ráðherra ótímabærar og ólíklegar til að bæta árangur og óljóst sé hvaða markmiðum þær eigi að ná. Það er auðvitað eðlilegt þegar kemur fram svona sterk gagnrýni að farið sé að spyrja spurninga sem mörgum er ósvarað, og þess vegna hafa formenn þingflokka stjórnarandstöðunnar beðið um úttekt Ríkisendurskoðunar á Þróunarsamvinnustofnun til að byggja betur undir þau faglegu rök fyrir þessari breytingu, eða þá að niðurstaðan verði sú að það sé ekki sniðugt að fara þessa leið. Einnig hafa fulltrúar allra stjórnarandstöðuflokkanna beðið um skýrslu um skipulag þróunarsamvinnu. Þetta gerist allt saman vegna þess að svo mörgum spurningum er ósvarað. Í skýrslubeiðninni sem fulltrúar allra stjórnarandstöðuflokkanna hafa beðið um eru settar fram fyrirspurnir í 21 lið. Ég hef ekki tíma til að fara yfir þær en þetta sýnir samt sem áður að þarna er mörgum spurningum ósvarað.

Virðulegi forseti. Ég hef velt þessu fyrir mér, hlustað á umræður og hlustað á hæstv. ráðherra, en því miður hefur enginn hv. stjórnarþingmaður tekið þátt í umræðunni. Það vekur upp spurningar og vangaveltur um það hvort frumvarpið eigi í rauninni stuðning innan þingsins. Nú er Þórir Guðmundsson mætur maður og hefur eflaust vandað til skýrslu sinnar, en þó er ekki nægilegt að ein skýrsla sé undir svona miklum breytingum sem jafnframt hefur verið gagnrýnt með rökum frá m.a. stjórnsýslufræðingum. Þá fer maður að velta fyrir sér: Af hverju er verið að gera þetta hér? Ég er komin á þá niðurstöðu, og gaman væri að heyra í hæstv. ráðherra varðandi þetta hér í lok umræðunnar, að í raun séu ekki fagleg rök fyrir þessari breytingu heldur séu þau fjárhagsleg, vegna þess að ráðuneytið hefur þurft að skera mjög mikið niður hjá sér. Eftir að hægri stjórnin tók við hefur verið gefið í hvað niðurskurð varðar í utanríkisráðuneytinu sérstaklega, sem hefur þurft að skera meira niður en önnur ráðuneyti. Hæstv. ráðherra kom hér í pontu í þingsal þegar var verið að ræða fjárlagafrumvarp fyrir árið 2014 og mótmælti því hvernig farið væri með ráðuneytið þar sem hæstv. ríkisstjórn var búin að leggja blessun sína yfir tillögur um fjármagn sem átti að renna til ráðuneytisins, en meiri hluti fjárlaganefndar lagði þær tillögur ekki fram og féllst ekki á þær tillögur frá ríkisstjórninni. Enda segir hv. þm. Vigdís Hauksdóttir 9. desember 2013 í Morgunútvarpi Rásar 2 þegar ræddar voru áætlanir ríkisstjórnarinnar um að skerða útgjöld til vaxta- og barnabóta um 600 millj. kr. og draga úr útgjöldum til þróunaraðstoðar, að það væri hluti af því að vinda ofan af þeirri vitleysu sem var í gangi á síðasta kjörtímabili. „Þetta er bara byrjunin,“ sagði hv. þingmaður, formaður fjárlaganefndar, „sem koma skal hjá nýrri ríkisstjórn. Þetta er stefnan og af þessari stefnu verður ekki vikið.“

Ég held að þetta sé í rauninni svolítið klókt hjá hæstv. ráðherra, að taka þá bara tillögu nr. 24 hjá hagræðingarhópnum þar sem talað er um ráðuneytið og Þróunarsamvinnustofnun, það sem hagræðingarhópurinn leggur til, að mótuð verði framtíðarstefna um skipulag og vinnubrögð utanríkisþjónustunnar og horft verði til Þróunarsamvinnustofnunar og ráðuneytisins í því sambandi. Ég held að þetta sé hreinlega leið hæstv. utanríkisráðherra til þess að halda starfsmönnum inni í ráðuneytinu til að gera það mögulegt að halda uppi starfsemi í ráðuneytinu og lögbundnum verkefnum og snúa svolítið á hagræðingarhópinn og meiri hluta fjárlaganefndar sem hefur ákveðið að skera niður í ráðuneytinu umfram önnur ráðuneyti.

Nú má vera að ég hafi rangt fyrir mér, en þetta er eina niðurstaðan fyrir mér sem einhver rök eru í sem halda. En að renna stofnun, sem hefur fengið svona góða dóma í þau 34 ár sem hún hefur starfað, inn í ráðuneytið með svo veikum rökum sem eru sett fram í greinargerðinni, finnst mér bara ekki trúverðug, ég held að þarna liggi undir fjárhagslegar ástæður en ekki faglegar.