144. löggjafarþing — 85. fundur,  25. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[17:05]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Við þurfum að velta fyrir okkur hvort við eigum ekki að fá svona skýrslur inn á Alþingi og þær gangi til fagnefnda og fái faglega umfjöllun, samanber skýrsluna um sæstreng sem hér var lögð fram af hæstv. iðnaðarráðherra og við ræddum og skiluðum niðurstöðu um. Ráðherra er ekki enn búinn að ákveða hvernig hann fer með þá niðurstöðu? Er þetta ekki alveg tilvalið til þess að við, almennir þingmenn, fáum að ræða málið og fagnefndin hafi aðkomu að málinu áður en ráðherra tekur svo afdrifaríka ákvörðun?

Sex sinnum á síðustu 20 árum hefur verið gerð tilraun til þess að leggja niður Þróunarsamvinnustofnun Íslands, sex sinnum, þessa góðu stofnun. Eru menn ekki alltaf að reyna að ná fjármunum út úr þessari stofnun sem ætti í raun og veru að einbeita sér að verkefni sínu? Menn eru kannski undir niðri að ásælast fjármuni til annarra hluta, vegna þess að það er auðvitað alltaf slegist um fjármuni innan ráðuneyta og alls staðar. Þurfum við ekki að halda vel í sjálfstæði svona stofnunar sem hefur svona mikið og merkt hlutverk? Hver telur hv. þingmaður að sé best til þess fallinn að hafa eftirlit með starfseminni þegar hún er komin inn í utanríkisráðuneytið? Á utanríkisráðuneytið að vera þarna allt um kring með málefnastefnumótunarvinnu, framkvæmd og eftirlit með sjálfu sér? Hvernig í ósköpunum getur það gerst í nútímastjórnsýslu? Getur hv. þingmaður svarað því sem fyrrverandi hæstv. fjármálaráðherra? Mundi hún sem fyrrverandi fjármálaráðherra vilja sjá einhverja stofnun koma inn í það ráðuneyti?