144. löggjafarþing — 85. fundur,  25. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[17:10]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég kvaddi mér hljóðs undir lok þeirrar ræðu því að mér þótti það merkilegt sem hv. þm. Oddný G. Harðardóttir, sem situr í fjárlaganefnd á Alþingi, velti upp, að þessi tilhögun væri hugsanlega fyrst og fremst af fjárhagslegum orsökum. Þarna væri verið að uppfylla kröfur hagræðingarhóps ríkisstjórnarinnar, því að það er mjög merkilegt að þær tillögur voru kynntar hér með miklum lúðrablæstri og látum. En svo hefur nú kannski minna orðið úr framkvæmd tillagnanna og ríkisstjórnin er ef til vill eitthvað að fara í gang með það aftur að vinna að framkvæmd þeirra. Hluti þeirra var, eins og hv. þingmaður benti á, að endurskoða fyrirkomulag utanríkisþjónustu og það kann vel að vera að það sé rétt að þarna sjái menn einhvern flöt á því að ná fram ákveðinni — ekki hagræðingu, því að þegar hefur verið hagrætt mjög mikið, en fá meira út úr mannskapnum sem er á báðum stöðum. En þá þarf auðvitað að segja það skýrt hér í þinginu að það sé ekki ástæðan heldur að ástæðurnar fyrir því sem lagt er til í frumvarpinu séu faglegar, eins og rakið er í greinargerð. Ég held því að það hvíli á okkur sem sitjum í utanríkismálanefnd að spyrja eftir og fá skýringar á því sem hv. þingmaður hefur sagt úr því að hæstv. ráðherra sá ekki ástæðu til að koma hér upp í andsvar og andmæla þessum málflutningi sem vekur vissulega upp spurningar um það hvort hann sjái bara ekki ástæðu til þess því að þetta sé rétt kenning sem hv. þingmaður fari með.

Mig langar að spyrja hv. þingmann, sem situr í fjárlaganefnd eins og ég sagði hér áðan, hvert mat hennar er á stöðu utanríkisþjónustunnar. Hún nefndi áðan að þar hefði verið meira skorið niður en annars staðar í stjórnkerfinu. Höfum við gengið of langt — og þá vitna ég til meiri hlutans á Alþingi því að þessu var mótmælt bæði af minni hlutanum og hæstv. ráðherra á sínum tíma — í niðurskurði á utanríkisþjónustunni (Forseti hringir.) og ráðum ekki við að standa undir því sem okkur er þar ætlað?