144. löggjafarþing — 85. fundur,  25. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[17:12]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Við höfum auðvitað farið yfir það með hæstv. utanríkisráðherra og embættismönnum í utanríkisráðuneytinu hvernig staða mála er þar og hvernig reksturinn gangi. Það ráðuneyti hefur tekið fjárlögin eins og þau eru og sniðið síðan sína starfsemi eftir fjárlögunum og í rauninni staðið sig ágætlega í þeim efnum. En niðurskurðurinn þar var heilmikill og harkalegur. Til dæmis í fjárlögum fyrir árið 2014 var ekki tekið tillit til nokkurra tuga milljóna króna sem urðu til vegna þess að starfsmaður brást trausti og ráðuneytið var látið bera það, það skiptir máli og hlýtur að koma niður á starfseminni þegar slíkt lendir bara beint á ráðuneytinu. Það höfðu menn ekki kannast við að áður hefði verið gert og þarna gekk meiri hluti fjárlaganefndar hreinlega gegn tillögum ríkisstjórnarinnar hvað þetta varðar.

Mér finnst erfitt að segja: Já, nú er staðan þannig að við erum bara ekkert að spjara okkur, það er erfitt að segja það. Starfsmenn utanríkisþjónustunnar sinna afar mikilvægu starfi og gera það vel við þennan þrönga kost. Starfsmönnum hefur fækkað mjög mikið, það er búið að fækka ráðuneytum o.s.frv. og auðvitað var það gert í nauðvörn þegar við vorum að verja ríkissjóð falli, en síðan er haldið áfram eftir að við höfum náð að rétta úr kútnum. Ég get því ekki annað en hrósað ráðuneytinu fyrir hvernig það hefur staðið sig við að fylgja fjárlögum þó að ég sé ekki dómbær á það hvort við höfum gengið of langt í niðurskurðinum.