144. löggjafarþing — 85. fundur,  25. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[17:14]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég tek undir með henni að utanríkisþjónustan hefur mjög mikilvægu hlutverki að gegna, hlutverki sem er ekki alltaf vinsælt í opinberri umræðu. Það er heldur vinsælla eða líklegra fallið til vinsælda að tala um þetta sem einhvern óþarfa en að sjálfsögðu reiðum við okkur á samskipti við útlönd, þessi litla þjóð, við höfum gert það frá því við urðum til, frá landnámi höfum við reitt okkur á samskipti við útlönd og alltaf átt í mjög miklum samskiptum við umheiminn fyrir jafn litla þjóð og við erum. Það er má segja einkenni okkar stöðu þegar við skoðum það, og það sem einkennir alla söguna, menningarsöguna, stjórnmálasöguna, eru þessi samskipti. Við skulum því ekki vanmeta nauðsyn þess að hér sé rekin öflug utanríkisþjónusta. Ég tek undir með hv. þingmanni að ástæða er til að hafa áhyggjur af því hversu langt hefur verið gengið í niðurskurði á því sviði, og ég er viss um að hæstv. ráðherra er þar okkur sammála í þeim efnum, og hann kinkar hér kolli.

Það breytir því ekki að ég hef efasemdir um faglegu rökin fyrir því sem er lagt til í frumvarpinu, mundi fremur vilja sjá veg þróunarsamvinnu aukast í útgjöldum okkar og sjá áframhald á því starfi sem hefur verið í gangi hjá Þróunarsamvinnustofnun og hv. þingmaður kom líka inn á það í ræðu sinni, þ.e. það mat sem hefur verið gert á Þróunarsamvinnustofnun og er í bígerð. Það er í raun og veru þannig eins og ég hef ítrekað sagt að þessi stofnun — maður sér ekki hvað amar það og hvers vegna er þá ástæða til breytinga ef ekkert er bilað, eins og sagt er. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hún sjái fyrir sér hvað væri farsælast að gera, hvort farsælast væri þá að hafa óbreytt fyrirkomulag, hvort hún telji að einhverjar breytingar þurfi að gera, t.d. hvað varðar aðkomu þingsins, sem hún gerði sérstaklega að umræðuefni. Og hvort það væri þá skynsamlegra að bíða (Forseti hringir.) með þetta mál til næsta þings og skoða það betur í þverpólitísku samráði, svo að ég spyrji nokkurra gildishlaðinna spurninga.