144. löggjafarþing — 85. fundur,  25. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[17:17]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég sé ekki af hverju liggur svona á með þetta mál nema ef vera kynni að það standi í einhverjum tengslum við fjárhagslegar áætlanir og hvernig eigi að skipta verkefnum á milli manna í ráðuneytinu. Ég hefði haldið að skynsamlegra væri, og hæstv. ráðherra hefði átt að taka vel í það, að bíða eftir þeim skýrslum sem kallað hefur verið eftir og fagna því að það væru þá frekari rök undir þessa ákvörðun sem hann vill taka.

Mér finnst mikilvægt að koma því að hér að í umsögn um frumvarpið frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, skrifstofu opinberra fjármála, kemur fram, eins og ég sagði áðan, að hjá Þróunarsamvinnustofnun Íslands starfa nú 40 starfsmenn. Í umsögninni segir, með leyfi forseta:

„Ekki er reiknað með að sameiningin leiði til breytinga á fjölda starfsfólks og ekki er heldur reiknað með breytingum í húsnæðismálum, en þróunarsamvinnuskrifstofa ráðuneytisins og ÞSSÍ starfa nú þegar náið saman og hafa aðsetur í sama húsnæði.“

Svo segir líka:

„Ekki er gert ráð fyrir að frumvarpið hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs vegna reksturs og styrkja í þessum málaflokki, verði það óbreytt að lögum, þar sem gengið er út frá því að mögulegur ávinningur af samlegð verkefna verði notaður til að auka starfsemina að öðru leyti.“

Mér finnst að fjármála- og efnahagsráðuneytið átti sig á því til hvers verið er að gera þetta, það vanti starfsmenn í utanríkisþjónustuna og þetta sé leið til að fjölga þeim í ráðuneytinu.