144. löggjafarþing — 85. fundur,  25. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[17:19]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp frá hæstv. utanríkisráðherra um breytingar á lögum um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands. Fluttar hafa verið margar ræður, ein af hæstv. ráðherra og svo er það minni hlutinn í þinginu sem virðist einna helst hafa áhuga á þessum málum.

Ég vil byrja mál mitt á því að lýsa yfir áhyggjum af viðhorfum ríkisstjórnarinnar til þess hvernig umgangast eigi stjórnsýsluna. Það var mikill ófriður í kringum flaustursleg áform um flutning Fiskistofu. Við vitum eiginlega ekki enn hver niðurstaðan úr því verður. Það var öllu hleypt upp í loft í þeirri mikilvægu stofnun þegar átti að flytja hana á milli landshluta. Kom þá hér fram frumvarp forsætisráðherra um að ráðherra væri í sjálfsvald sett að ákveða hvar stofnanir ættu að vera staðsettar. Það voru engin almennileg fagleg rök eða rökstuðningur yfir höfuð fyrir því hvers vegna þessar breytingar væru svona nauðsynlegar. Að sjálfsögðu er óeðlilegt að ráðherra hafi sjálfdæmi um hvar opinberar stofnanir eru staðsettar. Annaðhvort skal kveðið á um það í lögum hvar þær eiga að vera staðsettar eða ef verið er að flytja þær á Alþingi að koma að ákvörðun þar um, enda eru ýmis atriði sem þarf að skoða.

Reynslan af Fiskistofu segir okkur að rík ástæða er til að halda í þau lög að það sé Alþingi sem taki þá ákvörðun, því að þarna átti án nokkurra góðra ástæðna að flytja heila stofnun. Þá er ég ekki að mótmæla þeirri stefnu að mikilvægt sé að byggja upp störf á landsbyggðinni og kannski ágætt að minna ríkisstjórnina á mikilvægi þess þegar hún hefur aðallega stuðlað að fækkun þeirra með niðurskurði opinberra starfa um land allt. En hér er aðeins önnur aðferðafræði á ferðinni, ekki er verið að flytja stofnun heldur beinlínis verið að leggja hana niður og setja hana undir ráðuneytið. Hér á það sama við. Það eru engin almennileg rök færð fyrir því hvers vegna það eigi að gera. Jú, það er talið betra að tvíhliða og marghliða þróunarsamvinna séu á sama stað. Ég ætla að fara nánar yfir það á eftir en ekki er sérstaklega farið í að reyna að rökstyðja það á trúverðugan hátt.

Okkur í Samfylkingunni er mjög annt um þróunarsamvinnu og þau sex ár sem Samfylkingin var með utanríkisráðherra beittum við okkur mjög í þeim málaflokki. Árið 2008 voru sett lög um þróunarsamvinnu og fór þá stofnunin í gegnum tiltölulega miklar breytingar. Hún var löguð að nútímalegri stjórnsýslu í anda ábendinga Ríkisendurskoðunar í nokkur ár þar á undan. Þá var líka ákveðið að vera með sérstaka þingkjörna stjórn yfir stofnuninni og hún var færð beint undir stjórn ráðuneytisins, sem hefur gert hana sveigjanlegri og auðveldar ríkisstjórn hverju sinni að koma beint fram stefnu sinni í þróunarsamvinnu. Það eru því engin vandkvæði fyrir ríkisstjórn að eiga samvinnu við þessa undirstofnun ráðuneytisins.

Svo hafa verið lagðar fram tvær þingsályktanir um aðgerðaáætlun og hana á að leggja fram til fimm ára í senn þar sem fram koma markmið og áherslur Íslands í málaflokknum. Það var jafnframt ákveðið á síðasta kjörtímabili að leggja aukinn metnað í framlög til tvíhliða þróunarsamvinnu í samræmi við markmið Sameinuðu þjóðanna um að þjóðir greiði 0,7% af vergri landsframleiðslu til þróunarsamvinnu og kemur það auðvitað til af því að við sem njótum þess að búa í ríku þróuðu hlutum heimsins verðum að leggja okkar af mörkum til að koma í veg fyrir fátækt og hjálpa fólki frá fátækt, þar sem helstu vandamál fólks eru ekki lífstílssjúkdómar heldur alvarleg vannæring, menntunarskortur, skortur á fæðingaraðstoð og heilsugæslu og álíka grundvallarþætti sem við teljum sjálfsagða hér á landi og í þeim ríkjum sem við erum í flokki með.

Þessi ríkisstjórn féll frá þeirri áætlun. Metnaðurinn var ekki jafn mikill og hjá þeirri fyrri, þrátt fyrir að það hefði verið þverpólitísk samstaða um þetta mál á sínum tíma í þinginu, nema hjá einum þingmanni sem því miður er í þeirri aðstöðu að geta beitt sér þó nokkuð mikið sem formaður fjárlaganefndar í málinu. Hér hefur verið farið yfir yfirlýsingar hennar varðandi þennan málaflokk og frekari niðurskurð og ég ætla ekki að eyða frekari tíma í það.

Varðandi sjálft frumvarpið virðist eini tilgangur þess vera að leggja niður Þróunarsamvinnustofnun. Það er í sjálfu sér ekkert úttalað um neinar aðrar breytingar á þróunarsamvinnu og skipan hennar í frumvarpinu. Það kemur fram að þetta á ekki að spara fé en það á að koma í veg fyrir skörun á stefnumótun og framkvæmd og draga úr óhagræði og tvíverknaði í rekstri og stjórnun. Hins vegar er ekkert sem gefur okkur tilefni til að ætla að þörf sé á þessu því að ekki er um óhagræði og tvíverknað í rekstri og stjórnun stofnunarinnar að ræða. Hún hefur þvert á móti fengið ágætiseinkunn Ríkisendurskoðunar og er almennt litið til hennar af aðilum á sviði þróunarmála í alþjóðasamfélaginu sem mikillar fyrirmyndarstofnunar. Hins vegar hefur verið bent á það í skýrslu Sigurbjargar Sigurgeirsdóttur stjórnsýslufræðings að það að setja þróunarsamvinnu inn í ráðuneytið veiki faglega stefnumótun í þróunarsamvinnumálum og dragi úr innra aðhaldi við ákvarðanatöku.

Það hefur komið fram í máli ráðherra að fjölmargir aðilar hafi bent á að gott sé og heppilegt að leggja niður stofnunina og flytja málaflokkinn inn í ráðuneytið, en það er erfitt að finna rökin fyrir því nema í þeirri skýrslu sem Þórir Guðmundsson vann fyrir ráðuneytið.

Svo komum við að góðum stjórnarháttum og góðri stjórnsýslu og þá er það svo að Ríkisendurskoðun hefur lagt áherslu á aðskilnað framkvæmdar og eftirlits. Það er þannig í dag í Þróunarsamvinnustofnun að hún er með framkvæmdina og eftirlitið er hjá ráðuneytinu. Nú á að setja framkvæmdaraðilann undir eftirlitsaðilann og það er náttúrlega fullt tilefni til að vara við slíku. Þá er líka bent á að sú leið hafi verið farin hjá ýmsum öðrum ríkjum en hér hafa verið tekin dæmi til dæmis frá Ítalíu um að þar hafi marghliða þróunarsamvinnan þvert á móti verið flutt úr ráðuneyti inn í stofnunina sem sér um tvíhliða samvinnu. Og talandi um stjórnsýslu og vinnubrögð hefur niðurskurðurinn auk þess verið mikill. Það þurfti að skera niður í stjórnsýslunni í kjölfar hrunsins. Svo kom ný ríkisstjórn og var með aðhaldskröfu á Stjórnarráðið, sem er sjálfsagt. En það dugði ekki heldur kom á milli umræðna viðbótarkrafa upp á 5% niðurskurð sem er 1/20 af rekstrarfé Stjórnarráðs Íslands, tillaga á milli umræðna.

Nú má vel vera að það megi á einhverjum tíma færa rök fyrir slíkum niðurskurði. En niðurskurður sem þessi á Stjórnarráði Íslands hlýtur að vera gerður með ígrundaðri hætti en svo að hann komi inn í ráðuneytið án nokkurs fyrirvara. Það er í því umhverfi sem við ræðum þessi mál, umhverfi þar sem við höfum eingöngu orðið vör við sleifarlag og geðþóttaákvarðanir. Þess vegna kemur kannski ekki á óvart að þegar þetta frumvarp kemur inn vantar undirbúningsvinnu sem er nauðsynleg til að nefndin geti lagt mat á málið. Nú hefur verið bent á það að auðvitað koma málin til nefndarinnar og eru send út til umsagnar. En hér vantar upp á vinnu af hálfu ráðuneytisins við gerð frumvarpsins og lausnin á því máli var sú að minni hlutinn ákvað að leggja fram skýrslubeiðni til að draga upp á yfirborðið ýmsar spurningar sem ósvarað er í greinargerð. Þar er til dæmis beðið um töluleg gögn og reynslu um að þetta auki skilvirkni og hagræðingu og spurt hvort fyrir liggi hagkvæmnisúttekt. Það er beðið um fagleg rök. Þetta er 21 spurning. Það er mjög mörgum spurningum ósvarað. Ein er ekki síst mikilvæg og hún er sú af hverju ekki sé beðið eftir því að Þróunarsamvinnustofnun OECD, DAC, klári svokallaða jafningjaúttekt sem fyrirhuguð er á árinu 2016. Ég sé ekki að með fyrirmyndarstofnun sem Þróunarsamvinnustofnun Íslands að svo mikið liggi á að leggja hana niður að ekki megi bíða eftir slíkri úttekt. Þá þurfum við að fá frekari skýringar á hvað hastar. Ekki er það sparnaður, ekki eru það góð og gild rök. Það verður fróðlegt að fá skýrsluna með svörum við spurningum frá fulltrúum minni hlutans því að þær vantar algerlega í greinargerð.

Síðan langar mig að tala um það sem fram hefur komið um aukna aðkomu þingsins að málaflokknum. Nú ætla ég sem alþingismaður ekki að gera lítið úr því að auðvitað þurfa að vera skýrar leiðir fyrir þingmenn til að fá upplýsingar um málaflokka. Við eru með skýrar boðleiðir innan þingsins. Við erum með möguleika til fyrirspurna, skýrslubeiðna, við getum kallað fyrir þingnefndir fulltrúa frá ráðuneytum og stofnunum sem og öðrum samtökum til að fjalla um þróunarsamvinnu og áætlun um þróunarsamvinnu er lögð fyrir þingið á fimm ára fresti. Það að einhverjir fimm alþingismenn setjist í nefnd úti í bæ er gamaldags og furðuleg tillaga og það að hún eigi að auka aðkomu þingsins að málaflokknum er ekki boðlegur málflutningur. Ráðherra ætti að íhuga það verulega á hvaða leið hann er með þetta. Ég ítreka að fyrir alþingismenn í hlutverki sínu er mikilvægt að hafa sem bestar upplýsingar. En hér eru fjölmargir málaflokkar þar sem við skipum ekki sérstakar nefndir úti í bæ svo þingmenn í fundarherbergjum einhvers staðar geti fengið upplýsingar yfir kaffibolla. Það gerum við á vettvangi þingsins. Við erum með skýr þingskapalög og heimildir til að fá þær upplýsingar sem við viljum og hefja þær umræður sem við viljum hefja. Það þarf enga fimm manna þingnefnd.

Ég vil ljúka máli mínu á þessu af því að mér finnst þetta sýna okkur best hvers konar afturhaldshugmyndir þetta eru og hversu gamaldags þær eru. Þær eiga ekki við í dag. Vonandi er metnaðurinn meiri í þróunarsamvinnu hjá hæstv. ráðherra en fram kemur í þessu frumvarpi.