144. löggjafarþing — 85. fundur,  25. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[17:39]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Bara til að leiðrétta það þá er ég er líka hjartanlega sammála því að frumvarpið er vont, en hæstv. utanríkisráðherra er augljóslega mikið í mun að koma því fram. Eins og rakið hefur verið í umræðunni eru margir utanríkisráðherrar búnir að fá þessa áskorun en hafa staðist það að ganga lengra með hana. Það var reifað hér og rætt ágætlega í gær og ég er alveg sammála því. En málsins vegna hefði ég haldið að ef hæstv. ráðherra er mjög umhugað um að gera þetta með þessum hætti hefði hann átt að bíða. Mér finnst ekki hafa verið sýnt fram á að skipulagið, þ.e. það sem hér á að taka fyrir, leiði til þess að frammistaða okkar í þróunarsamvinnumálum batni. Mér finnst líka mjög skrýtið að vera að færa inn ýmsa þætti, eins og rætt var um í gær. Þetta eru í raun mjög ólíkir þættir og ég hefði viljað byrja á því að sjá alla tvíhliða samvinnu flutta til Þróunarsamvinnustofnunar því að hún er ekki öll þar, þ.e. annars vegar að vera á vettvangi þar sem hamfaraástand er eða friðargæslan eða eitthvað slíkt og svo að aðstoða innan héraðs, svona maður á mann. Það er miklu frekar það sem Þróunarsamvinnustofnun gerir.

Mig langar aðeins að spyrja hv. þingmann út í frumvarpið af því að það eru ákveðnar fullyrðingar sem mér hefur fundist vanta rökstuðning við. Í gær var rætt um að það væru dylgjur á bls. 7 og 8. Talað er um að draga úr óhagræði vegna tvíverknaðar í rekstri og stjórnun sem leiði til aukinnar hagkvæmni þegar til lengri tíma sé litið. Þar er verið að ýja að því að svo sé ekki í dag, að stofnunin sé í rauninni ekki vel rekin. Ég var að lesa áðan í frumvarpinu að þetta er í rauninni hlið við hlið í utanríkisráðuneytinu, líka í umsögn fjármálaráðuneytisins, (Forseti hringir.) en það er samt sem áður eins og ekki sé hægt að vinna náið saman heldur er þetta bara hugsað út frá því að (Forseti hringir.) leita leiða til aukinnar hagræðingar. Það er eins og hagræði geti þá ekki falist í því að þetta verði áfram sjálfstæð stofnun (Forseti hringir.) af því að þar starfar hluti af starfsmönnum hlið við hlið.