144. löggjafarþing — 85. fundur,  25. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[17:47]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Já, það er almennt viðurkennt í stjórnsýslufræðum og almennt, það er ekki bara í stjórnsýslufræðum, að framkvæmd og eftirlit eigi ekki að vera á sömu hendi.

Ég tel að utanríkisráðuneytið sé ágætisráðuneyti. Ég þekki ekki innviði þess en ég hef enga ástæðu til að ætla annað af þeirri reynslu sem ég hef en að það ráðuneyti sé gott ráðuneyti og sinni mjög vel hlutverki sínu. En það hefur verið svo mikill niðurskurður þar að það er ráðuneyti sem þarf á öllu sínu að halda. Það þarf að tryggja að innviðir eyðileggist ekki í svona mikilvægum stofnunum eins og ráðuneyti eru. En væntanlega eru þá einhverjir sem sjá um framkvæmdina innan ráðuneytisins og svo er einhver eining sem sér um eftirlitið. Af hverju erum við ekki með fjármálaeftirlit inni í bönkunum? Af hverju er ekki fjármálaeftirliti bara dreift á þá? Það er nokkuð skýrt svar, við viljum hafa ákveðna múra á milli. Við viljum tryggja að það séu ólíkir hagsmunir. Það geta orðið hagsmunir fyrir eftirlitið að eitthvað komi ekki í ljós því að það gæti orðið óþægilegt fyrir ráðherrann eða slíkt. Ég er ekki að dylgja, ég er svona í almennum fabúlasjónum.

Það er til dæmis þannig að Barnaverndarstofa var bæði með eftirlits- og framkvæmdahlutverk. Hún er enn með eftirlitshlutverk gagnvart sveitarfélögunum, en eftirlitið með þeim rekstri barnaverndarmála sem ríkið fer með og Barnaverndarstofa er í forsvari fyrir fluttum við inn í velferðarráðuneyti einmitt til að skilja þarna á milli og til að borgararnir gætu betur treyst því að verið væri að fylgjast með því að farið væri að lögum og reglum.