144. löggjafarþing — 85. fundur,  25. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[17:55]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum ræðuna, hún var ekki löng en gagnmerk.

Ég vil vekja athygli á því sem mér fannst koma fram í máli þingmannsins sem er að nú er verið að efna til ófriðar um þann hluta af utanríkismálum okkar sem alltaf hefur verið sátt um. Nú verður það ekki sagt um utanríkismál á Íslandi að um þau hafi ríkt mikil sátt og við höfum misjafnar skoðanir á þeim og ég held að við hv. þingmaður höfum haft ólíkar skoðanir á þeim í gegnum tíðina, en um þennan þátt utanríkisstefnunnar hefur verið sátt og lögð hefur verið áhersla á að hafa sátt um hann. Nú er sá hluti tekinn inn í ófriðarbál.

Nú er málið komið til þingsins og þar sitja allir flokkar og tala saman í utanríkismálanefnd. Hv. þingmenn ríkisstjórnarflokkanna hafa ekki tekið þátt í þessari umræðu. Nú situr hv. þingmaður í utanríkismálanefnd, ég geri það ekki, og mig langar að spyrja: Hefur hún á tilfinningunni að þeir muni taka þátt í umræðunni í nefndinni? Eða verður þetta bara allt keyrt í gegn? Ég spyr vegna þess að á síðasta kjörtímabili voru þessir flokkar í stjórnarandstöðu og þá töluðu þeir, en svo sátu þeir í nefndum og höfðu enga skoðun þar og gerðu ekki neitt og þvældust bara fyrir. Er einhver ástæða til að ætla að þegar þetta fólk (Forseti hringir.) er komið í stjórn og meiri hluta þá fari það að gera eitthvað sem skiptir máli? Hvernig virkar (Forseti hringir.) þetta á hv. þingmann sem situr í utanríkismálanefnd?