144. löggjafarþing — 85. fundur,  25. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[18:11]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mér þykja hamfaraspádómar hv. þingmanns vera orðnir alldökkir þegar rætt er um árið 2070, (ÖS: 40.) 2040, nú þá er þetta allt í lagi, þá sleppur það. [Hlátur í þingsal.]

Virðulegi forseti. Ég vil segja að hún hefur valdið mér vonbrigðum sú svarafæð sem hér hefur verið uppi um þessi mikilvægu mál og hv. þingmaður nefnir, um meinta tvíverknaði, óskýrleika í framkvæmd, óskilvirkni sem svo reynist kannski engin vera þegar gögn málsins eru skoðuð, enda þarf ekkert slíkt flækjustig að vera þótt það séu sjálfstæðar fagstofnanir sem heyri undir ráðuneyti og það vitum við frá öðrum ráðuneytum. Við erum búin að fara yfir óteljandi dæmi þess þar sem fagstofnanir vinna í takt og samræmi við stefnu ráðuneytis og ráðuneytið fylgist svo með því að pólitískri og faglegri stefnumótun sé fylgt. Það hlýtur að geta átt við um Þróunarsamvinnustofnun eins og aðrar fagstofnanir.

Í ljósi þess að hér hafa verið færð fram veigamikil rök fyrir því að ekki sé rétt að fara í slíkar breytingar á stjórnsýslu, ekki síst vegna þess að beðið er jafningjarýni DAC, þróunarstofnunar OECD, átta ég mig ekki á því hvað er það sem hastar, af hverju þetta mál er lagt fram áður en sú rýni er lögð fram. Það dugir ekki að setja niður nokkur orð um að auka á skilvirkni og fækka tvíverknaði ef ekki er hægt að rökstyðja það með dæmum og sannfærandi rökstuðningi.

Herra forseti. Það hefur ekkert í þessari umræðu sannfært mig um annað en að rétt sé að bíða og staldra við, að rétt sé að kalla til þverpólitískt samráð ef menn vilja halda áfram með málið, en fyrsti valkostur væri líklega að bíða eftir (Forseti hringir.) skýrslunni sem væntanleg er 2016. Ég held að ekkert (Forseti hringir.) fari sérstaklega úrskeiðis í samfélaginu þó beðið verði með þetta mál.