144. löggjafarþing — 85. fundur,  25. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[18:14]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands og fleira. Með frumvarpinu má segja að verið sé að gera tillögu um grundvallarbreytingu á fyrirkomulagi þróunarsamvinnu Íslands, þ.e. að leggja Þróunarsamvinnustofnun niður og færa starfsemina í utanríkisráðuneytið.

Það fyrsta sem ég staldra við þegar kemur að þessu lagafrumvarpi er hversu mjög mér hefur fundist hæstv. ríkisstjórn draga lappirnar þegar kemur að þróunarsamvinnu. Það veldur mér ákveðnum áhyggjum. Við erum enn langt frá þeim markmiðum sem við höfum sjálf sett okkur hér á Alþingi með þingsályktun sem afgreidd var á síðasta þingi af öllum þingmönnum nema einum þar sem ákveðið var að auka í þátttöku Íslands í þróunarsamvinnu. En eins og margoft hefur komið fram í umræðu á Alþingi, m.a. í sérstakri umræðu nú fyrr í vetur um þróunarsamvinnu sem og í umræðum um skýrslu utanríkisráðherra um utanríkismál hér fyrir nokkrum dögum, setjum við enn sem komið er ekki nema um 0,21–0,22% af vergri landsframleiðslu í þróunarmálin á meðan við höfðum ætlað okkur að vera komin upp í 0,35% samkvæmt fyrrnefndri þingsályktunartillögu. Því miður erum við miklir eftirbátar hinna Norðurlandanna sem setja frá um 0,55% af vergri landsframleiðslu sinni í þróunarsamvinnu og upp í allt að rúmlega 1%.

Markmið Sameinuðu þjóðanna er að þróuð og vel stæð ríki, eins og Ísland telst vera, setji að lágmarki 0,7% af landsframleiðslu sinni í þróunarsamvinnu. Það eitt og sér hversu lítinn þátt við tökum og leggjum til í þróunarsamvinnunni vekur því strax hjá mér ákveðin viðbrögð, það kviknar á viðvörunarbjöllum þegar síðan kemur frumvarp um það hreinlega að leggja Þróunarsamvinnustofnun niður, sem hefur jú að miklum hluta milligöngu um að koma þessum peningum til skila svo hægt sé að fara að vinna að góðum málum. Í þessu felast alveg óskaplega dapurleg pólitísk skilaboð vegna þess að þrátt fyrir að við glímum við ýmis vandamál sem tengjast misskiptingu hér heima fyrir erum við engu að síður meðal ríkustu þjóða í heimi. Þess vegna tel ég að okkur beri siðferðisleg skylda til þess að leggja okkar af mörkum í þessum málaflokki.

Eftir því sem ég best fæ séð og veit þá hefur Þróunarsamvinnustofnun sinnt starfi sínu óskaplega vel. Vel er látið af verkefnum stofnunarinnar í skýrslum. Hún hefur haldið sig innan fjárlaga, þ.e. ekki farið fram yfir það fjármagn sem henni hefur verið úthlutað, og sinnir sannarlega mikilvægum verkefnum til þess að bæta lífskjör fólks í fátækustu ríkjum heimsins.

Líkt og aðrir hafa bent á í umræðunni virðist með þessu lagafrumvarpi um að leggja niður Þróunarsamvinnustofnun, að flytja starfsemina inn í utanríkisráðuneytið, eiga að fara að breyta einhverju eða leggja til að eitthvað sé lagað sem ekki er bilað heldur virðist þvert á móti virka harla vel.

Ég tel að í umræðunni hafi það aldrei almennilega komið fram hvað það er sem betur megi fara hjá Þróunarsamvinnustofnun og hvað ætti í raun að batna með því að færa starfsemina í utanríkisráðuneytið. Jú, nefnt hefur verið að koma eigi í veg fyrir tvíverknað, skörun og óvissu í málaflokknum, en ég hef enn ekki heyrt nein sannfærandi rök og í raun ekki nein rök fyrir því í hverju sú tvítekning liggi og hvað það er sem þess vegna eigi að bæta.

Hæstv. forseti. Raunin er því sú að alveg óskaplega mörgum spurningum er ósvarað í þessu máli og þegar kemur að þessu lagafrumvarpi.

Ég tek eftir einhver konar reglu, að þegar klukkan er farin að ganga sjö þá þornar alltaf röddin upp í mér í þessum sal. (Gripið fram í: Tala fyrr.) Ég þarf að koma mér fyrir á mælendaskrá, það er líklega rétt ábending. En afsakið. Ég ætla að halda áfram.

Mörgum spurningum er ósvarað varðandi starfsemi Þróunarsamvinnustofnunar og hverju eigi að ná fram með því lagafrumvarpi sem hér er lagt fram. Það tel ég að sjáist ekki hvað síst í beiðni um skýrslu sem þingmenn úr flokkum stjórnarandstöðunnar hafa lagt fram. Mig langar aðeins að tæpa á nokkrum spurningum sem þar er varpað fram. Þar er kallað eftir svörum við spurningum um málið. Ef vel hefði átt að vera hefðu verið komin svör fyrir umræðuna þannig að við værum nú á öðrum stað í umræðunni í stað þess að tala í getgátum inn í framtíðina. Við þurfum að geta okkur svolítið til um hver niðurstaðan verður, en auðvitað hefðu svörin átt að vera komin fram. Það fyrsta sem beðið er um að komi fram í skýrslunni eru reynsla og töluleg gögn. Þar segir, með leyfi forseta:

1. Reynsla og töluleg gögn sem liggja til grundvallar því mati að sameining auki skilvirkni og hagræðingu og upplýsingar um hvort fyrir liggur hagkvæmnisúttekt sem styður þetta mat.

2. Fagleg rök sem liggja til grundvallar áformum um sameininguna.

3. Hvort hlutlausir sérfræðingar hafa metið núverandi fyrirkomulag og hvort efnislegar ástæður þykja til breytinga í ljósi þess að gildandi lög um þróunarsamvinnu frá árinu 2008 byggjast á greiningu þar sem lögð var til verkaskipting milli ráðuneytis og stofnunar og pólitísk samstaða allra flokka hefur verið um það fyrirkomulag til þessa.

4. Hvort ráðuneytið telur önnur lögmál gilda um þróunarmál en aðra málaflokka í ljósi þess að almennt hefur stjórnsýslan þróast æ meira á þann veg að stefnumörkun og eftirlit með framkvæmd hennar er á hendi ráðuneyta en framkvæmdin sjálf á hendi faglegra stofnana …“

Virðulegi forseti. Ég ætla nú ekki að lesa upp allar tuttugu og eina spurninguna, en þær eru allar mjög mikilvægar inn í þessa umræðu. Mig langar að staldra sérstaklega við 9. spurninguna þar sem kallað er eftir beiðni um skýrslu. Hún hljómar svona, með leyfi forseta:

„Upplýsingar um af hverju ekki er beðið niðurstöðu úttektar DAC á skipulagi og árangri þróunaraðstoðar, sem fyrirhuguð er hérlendis árið 2016, áður en lagt er til að Alþingi ákveði að leggja niður stofnunina.“

Það hefur verið talsvert til umræðu í dag og áheyrendum til útskýringar þá stendur DAC fyrir þróunarsamvinnunefnd Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD. Strax á næsta ári er von á því að nefndin geri úttekt á fyrirkomulaginu á Íslandi. Ég skil hreinlega ekki hvers vegna hæstv. ráðherra bíður ekki í ár og sér hvaða niðurstaða kemur úr úttekt DAC og af hverju við höldum ekki bara okkar striki með Þróunarsamvinnustofnun sem hefur, eins og ég rakti áðan, verið að sinna hlutverki sínu býsna vel, eftir því sem ég fæ séð.

Einnig hefur talsvert verið rætt í þessari umræðu um skýrslu sem frumvarp hæstv. utanríkisráðherra er byggt á. Þóri Guðmundssyni var falið að gera greiningu á aðferðafræði, skipulagi og fyrirkomulagi á framkvæmd þróunarsamvinnu á Íslandi. Hann skrifaði býsna langa skýrslu um það mál. Mig langar að vitna aðeins í innganginn á þeirri skýrslu, því að svo að þó svo að Þórir komist að ákveðinni niðurstöðu í skýrslu sinni kemur það mjög glögglega fram að fleiri eru niðurstöður mögulegar en sú sem hann kemst að lokum að og mælir með. Þess vegna langar mig að vitna í innganginn. Þar segir, með leyfi forseta:

„Í þessari skýrslu eru settar fram hugmyndir sem hér eru nefndar kostir til skoðunar. Í sumum tilvikum eru settar fram fleiri en ein hugmynd um nokkur helstu álitamál sem varða aðstoð Íslands við þróunarlöndin. Það er gert til að fá fram umræður um kosti og galla tillagnanna. Taka skal fram að í sumum tilvikum er þegar verið að vinna að sumu því sem hér er sett fram sem kostir, enda kveðið á um sumt af því í þróunarsamvinnuáætlun.“

Mér finnst það nokkuð mikilvægur punktur vegna þess að höfundur setur hér fram ýmis atriði til umræðu. Það er kannski það sem mér finnst svo dapurlegt við þá umræðu sem átt hefur sér stað í dag og í gær hér á Alþingi, að það er bara stjórnarandstaðan sem tekur þátt í henni. Það er engin alvöruumræða. Hér kemur hver hv. þingmaður stjórnarandstöðu upp á fætur öðrum til þess að reyna að halda uppi umræðu aðallega um galla frumvarpsins en þó kosti þess til þess að hv. utanríkismálanefnd fari vel nestuð inn í nefndarvinnuna. Ég skil ekki inngang Þóris Guðmundssonar betur en svo að hann hafi í rauninni líka verið að kalla eftir ákveðinni umræðu vegna þess að hann setur ekki bara fram eina niðurstöðu heldur setur hann fram ólíka punkta sem hægt er að nota sem umræðugrundvöll.

Þess vegna vil ég nú þegar tími minn er að renna út lýsa vonbrigðum mínum yfir því að við skulum ekki hafa notað tímann í þessari umræðu til þess að eiga alvöruumræðu, stjórn og stjórnarandstaða, (Forseti hringir.) um kosti og galla þessa frumvarps.