144. löggjafarþing — 85. fundur,  25. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[18:36]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að þetta séu mjög mikilvægar spurningar og vangaveltur sem hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir veltir upp, þ.e. hvert hlutverk Alþingis eigi að vera og hvernig aðkoma þess eigi að vera að stefnumótun og aðkomu að málaflokkum. Nú ætla ég ekki að setja mig á háan hest og þykjast vera einhver sérfræðingur í því hvernig stjórnsýslan virkar, ég er raunar bara að stíga mín fyrstu skref í því að ná áttum í þessu kerfi. En það sem ég hef þó tekið eftir þennan vetur sem ég hef setið á Alþingi er sá háttur hæstv. ríkisstjórnar að koma hér inn með boðvaldi, þ.e. að hæstv. ríkisstjórn kemur með frumvörp og virðist líta á það sem hlutverk okkar þingmanna að stimpla þau, meðan ég hef alltaf skilið stjórnskipunina akkúrat í öfuga átt, að það séum við þingmenn sem komum með málin og felum svo hæstv. ríkisstjórn að framkvæma þau. Vegna þessa skilnings míns finnst mér það mjög skrýtið ef velja á fimm alþingismenn sem eiga að hittast tvisvar á ári til þess að ræða þróunarsamvinnu í hæstv. utanríkisráðuneyti. Ég hefði haldið að hv. utanríkismálanefnd sem og þessi salur hér sé vettvangurinn þar sem við eigum að móta (Forseti hringir.) framtíðarsýn og nútímasýn Íslands í því hvernig við ætlum að haga okkar þróunarsamvinnu.