144. löggjafarþing — 85. fundur,  25. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[18:39]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þróunarsamvinnustofnun Íslands var sett á laggirnar 1981 af þáverandi utanríkisráðherra og formanni Framsóknarflokksins, Ólafi Jóhannessyni. Hún hefur allar götur síðan þróast með ýmsum hætti. Þegar maður horfir á svipað starf í öðrum löndum má sjá að það hefur tekið á sig ýmsar myndir allt eftir aðstæðum hverju sinni. Í því áliti sem við höfum nefnt margsinnis í umræðunni, áliti þróunarsamvinnunefndar OECD, DAC-nefndarinnar svokölluðu, eru rissuð upp þrjú módel sem segja má að séu notuð í mismunandi löndum. Þar er sérstaklega bent á að hið íslenska kerfi hafi þróast pínulítið á ská utan við þetta og falli ekki almennilega inn í neitt af þeim módelum sem eru fyrir hendi. Það þýðir náttúrlega ekki að þess vegna þurfi endilega að brjóta það upp. Íslenska kerfið hefur virkað vel. Það liggur fyrir og um það er ekki til betri heimild en það sem hæstv. utanríkisráðherra hefur sjálfur sagt mjög skýrt í greinargerðinni, að margsannað sé hjá útlendum úttektaraðilum að stofnunin hafi staðið sig vel. Þess vegna þarf að vera mjög skýrt fram sett hvers vegna á að breyta kerfi sem gengur mjög vel. Það hafa engin rök komið fyrir því.

Það kann vel að vera rétt hjá hv. þingmanni að við hefðum átt að nota þessa umræðu til þess að ræða saman um hvernig væri best að hafa kerfið. Þá rifja ég það upp að formenn þingflokka stjórnarandstöðunnar báðu forseta og fengu leyfi hans til þess að þingið óskaði eftir óháðu stjórnsýslumati Ríkisendurskoðunar á áformunum, og af hverju? Vegna þess að meginstefna frumvarpsins gengur gegn öllum leiðbeiningum Ríkisendurskoðunar. Er ekki hv. þingmaður (Forseti hringir.) sammála mér um að til þess að við getum rætt þetta af einhverju viti (Forseti hringir.) þá þyrftum við að vita hvort þetta sé í anda þess sem stofnun Alþingis sjálfs, (Forseti hringir.) umboðsmaður, vill?