144. löggjafarþing — 85. fundur,  25. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[18:43]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Mæli hv. þingmaður kvenna heilust. Ég er algjörlega sammála því að grundvallarþátturinn í starfi stofnunar eins og Þróunarsamvinnustofnunar er vitaskuld fjárframlögin. Það tengist þessari umræðu. Það vill svo til að í greinargerð frumvarpsins, en hin efnislega greinargerð er upp á fimm eða sex síður, eru raktar ákveðnar röksemdir sem eru teknar upp úr áliti DAC-nefndarinnar og vissulega er að finna í því áliti ákveðnar ábendingar, en þær miða ekki við þá stöðu sem ríkir núna hvað fjárveitingar varðar. Þær miða nefnilega allar eða a.m.k. flestar við þá framtíð sem var búið að taka ákvörðun um að yrði af hálfu Alþingis þar sem veitt yrði snöggtum meira fjármagn til málaflokksins en er í dag. Þannig að þær röksemdir út af fyrir sig skipta litlu máli við aðstæður þar sem í gildi er samþykkt frá Alþingi sem ekki er fylgt. Hæstv. ráðherra hefur boðað að hann komi með aðra, ég veit ekkert hvenær hann ætlar að gera það. Í öllu falli blasir við að frá þeirri áætlun er búið að skera niður sem svarar til um 2,3 milljarða kr. Þannig að álit DAC svarar allt öðrum aðstæðum en ríkja í dag.

Það breytir ekki hinu að það er sjálfsagt ef þörf er talin vera á að breyta kerfum og stofnunum að leggja jafnvel niður stofnanir eða búa til nýjar. Í þessu tilviki hvílir mjög sterk skylda á hæstv. ráðherra að skýra það ef hann ætlar að breyta kerfi sem gengur vel. Ráðuneytið, ríkisstjórnin, hæstv. ráðherra hafa ekki risið undir þeirri skyldu. Í grundvallaratriðum er um að ræða breytingu sem gengur gegn leiðbeiningum Ríkisendurskoðunar og á ekki að spara fjármuni og er ekki til þess að svara neinum vanda sem hægt er að benda á. Þá spyr maður sig: Til hvers að fara í þennan leiðangur í herrans nafni og fjörutíu?