144. löggjafarþing — 85. fundur,  25. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[18:54]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er náttúrlega akkúrat það sem er, frumvarpið er svo vanbúið til umræðu að maður getur alveg hreint ruglast í því hver tilgangur með því er, enda vorum við níu þingmenn sem lögðum fram beiðni um að svarað yrði 21 spurningu áður en lagt væri út í þessa umræðu. Því hefur náttúrlega ekki verið svarað fremur en öðru.

Vissulega segir á pappírunum að ekki eigi að spara neitt eða gera nokkuð svoleiðis. Hins vegar vitum við öll að verulega hefur verið skorið niður til utanríkisþjónustunnar og með því að þessir peningar fara í utanríkisþjónustuna óttast ég að þeir verði notaðir til annarra verka en þróunarsamvinnu. Gagnsæið verður mun minna og það eru alls konar möguleikar til að færa fjármagn til sem er ekki á meðan starfsemin er í sérstakri stofnun, enda er það einn af kostunum við sérstaka stofnun að gagnsæið er meira, það er sérstakur fjárlagaliður, við þingmenn getum fylgst betur með.

Ég óttast að þetta sé leynileið hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur, sem hefur sýnt það í atkvæðagreiðslum að hún er á móti Þróunarsamvinnustofnun, að henni hafi dottið í hug að það mætti færa þetta þarna inn, þá væri hægt að skera af þessum hlutum án þess kannski að það væri jafn augljóst hvernig hún hefur beitt sér í þeim efnum og þeim þætti í utanríkisþjónustu okkar sem hefur verið samkomulag um á milli allra flokka, sem er ólíkt því sem er um flest önnur mál sem við fáumst við í utanríkismálum.