144. löggjafarþing — 85. fundur,  25. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[18:57]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur fyrir þetta ágæta svar. Meginkjarni þess er sá að með þessum breytingum væri unnt að skera niður við þróunarstarf í kyrrþey, þannig að minna færi fyrir því. Sannast sagna held ég að við þurfum að horfa á þessi mál í víðara samhengi. Ég horfi til dæmis til lagafrumvarps sem liggur fyrir þinginu um opinber fjármál sem færir, eftir því sem ég skil málið og hef lesið þetta frumvarp og greinargerð þess, vald frá Alþingi yfir í framkvæmdarvaldið í allríkum mæli. Það er nokkuð sem við eigum eftir að ræða vel í þingsal. Við erum með málið til umsagnar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins sem horfir fyrst og fremst á aðkomu þingsins að eftirliti með fjármunum hjá framkvæmdarvaldinu.

Það sem ég er að segja er þetta: Við þurfum að skoða þessi mál öll saman heildstætt og auðvitað er mjög mikilvægt, ég tek undir með hv. þingmanni, að fjárveitingar þingsins sem eru ákveðnar hér af hálfu fjárveitingavaldsins séu gagnsæjar til enda. Ég kaupi þau rök sem hv. þingmaður hefur reitt fram hvað þetta sérstaka lagafrumvarp áhrærir og aðkomu Íslendinga að þróunarsamvinnu.