144. löggjafarþing — 85. fundur,  25. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[19:00]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég er mjög ánægður að komast í þessa umræðu. Ég var fyrir hönd Alþingis á fundi tveggja nefnda Evrópuráðsins í París í fyrradag og í gær þar sem meðal annars var fjallað um aðkomu Íslendinga að mannréttindamálum. Eitt af því sem kom þar til umfjöllunar og er nú á döfinni hjá Evrópuráðinu er það sem farið er að tíðkast í sífellt ríkari mæli og snýr að mannréttindum og lýðræði. Það eru alþjóðlegir gerðardómar í alþjóðlegum viðskiptasamningum, þ.e. gerðardómar sem settir eru á laggirnar í tengslum við alþjóðlega viðskiptasamninga.

Nú langar mig til að lesa úr 1. gr. þessa frumvarps og færa síðan rök fyrir því hvers vegna ég nefni þetta sérstaklega. Hún snýr að markmiðum laganna og hér segir, með leyfi forseta: „Meginmarkmið með alþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands eru að styðja viðleitni stjórnvalda í þróunarlöndum til að útrýma fátækt og hungri og stuðla að sjálfbærri þróun, þ.m.t. mannréttindum.“ Annað er síðan talið upp.

Við styðjum með öðrum orðum, við leggjum okkar á vogarskálarnar með stjórnvöldum í þróunarlöndum til að þau geti staðið á eigin fótum. En hvernig er það þegar þau vilja að standa á eigin fótum? Hvernig koma Íslendingar þá fram? Þróunarsamvinna á að byggjast á gagnkvæmri virðingu, ekki á því að rétta einhverja bita að þeim sem eru þurfandi. Hún hlýtur að þurfa að byggja á gagnkvæmri virðingu. Við höfum átt samleið með þróunarríkjunum á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, sem var sett á laggirnar árið 1995 til að reyna að ná saman um alþjóðlega viðskiptasamninga í þjónustugreinum. Þetta hefur síðan orðið mjög umdeilt, ekki síst eftir að fátækustu ríkjum heims varð ljóst að heimsauðvaldið, og ég vek athygli á því hve ágætt orð „auðvald“ er, er að reyna að komast inn á gafl hjá þeim í gegnum þessa samninga. Þeir fara síðan í strand árið 2008 eftir mikil mótmæli á heimsvísu, ekki einungis í þróunarríkjunum heldur líka af hálfu verkalýðshreyfinga og mannréttindasamtaka í okkar hluta heimsins. En þá bregður svo við að ríkasti klúbburinn rottar sig saman á bak við hinn og í leyndarskjóli framan af, og síðan er það búið því að búið er að upplýsa um hvað þarna er á döfinni, og ætla að reyna að þröngva sameiginlegri niðurstöðu sinni, þessi fáeinu ríki eru þó 50 talsins, upp á öll 123 ríkin sem höfðu samleið í GATS-samningunum. Einn svakalegasti þátturinn í þeim samningum eru alþjóðlegir gerðardómar og þar er ég aftur kominn að fundi mínum í París á þriðjudag. Þar var vikið að þeim málum. Ég er einfaldlega að benda á að þetta stóra samhengi hlutanna verður að skoða. Þróunarsamvinna er að sýna þróunarríkjum virðingu og spyrja hvað það er sem þau vilja. Nú er vilji þeirra vitaður hvað þetta snertir, eigum við þá ekki að haga okkur í samræmi við það, ekki síst í ljósi þess göfuga markmiðs sem er útlistað í 1. gr. þessa lagafrumvarps?

Ég nefni þetta af mikilli alvöru. Ég hef fært rök fyrir því og kallað eftir því að við drögum okkur út úr TiSA-umræðunum og leggjum okkur síðan sérstaklega eftir því að slást í för með þróunarríkjum varðandi alþjóðlegan gerðardóm. Þetta vildi ég nefna í upphafi en síðan segja hitt að vinstri menn voru orðnir svolítið feimnir við að nota hugtakið „auðvald“, fannst það áróðurskennt hugtak en eftir því sem tímar hafa liðið og við vorum komin fram undir aldamótin og núna á okkar tíð þá verður okkur öllum ljóst hversu gagnsætt þetta hugtak er, að menn vilja ráða í krafti auðsins. Það er það sem er að gerast með þessum gerðardómum, að fyrirtækin, hin fjölþjóðlegu fyrirtæki eru að reyna að taka dómsvald einstakra ríkja og færa það yfir í þetta form. Sem betur fer eru að vakna upp mikil mótmæli gegn því í Evrópu innan Evrópusambandsins, gegn samningum sem Evrópusambandið hefur verið með á vinnsluborðinu með Bandaríkjunum.

Í þessu frumvarpi er gert ráð fyrir ákveðnum skipulagsbreytingum. Ég vil taka fram að ég er ekki á móti skipulagsbreytingum sem slíkum. Ég held meira að segja að það sé mjög gott í opinberum rekstri sem öllum rekstri að ráðast reglulega í mat á því hvort breyta eigi skipulaginu. Ég held að menn hafi almennt mjög gott af því en það verður að segjast að á undanförnum árum og áratugum, og þá er ég ekki einvörðungu að horfa til þessarar ríkisstjórnar, alls ekki, hefur einstaklega óhönduglega tekist til í þeim efnum. Menn hafa þjösnast áfram og reynt að keyra í gegn breytingar, iðulega gegn vilja starfsfólks og jafnvel þeirra sem njóta þjónustunnar, aldrei eða sjaldan gefið sér nægan tíma til að undirbúa breytingar þannig að um þær skapist góð sátt. Við reyndum að hverfa af þeirri braut á síðasta kjörtímabili í ýmsum efnum, tókst ekki vel upp í öllum tilvikum. Það voru til dæmis umdeildar breytingar á Stjórnarráðinu. Ég tók undir ýmislegt sem kom fram í gagnrýni á það. Við höfðum reynt að breyta skipulagi lögreglu og sýslumanna og alltaf var sama viðkvæðið. Það var ekki bundið við eina stjórn fremur en aðra. Það átti alltaf að gera þetta með skömmum fyrirvara, frá næstu áramótum.

Ég ætla að gorta svolítið af því, hæla mér svolítið af því að þegar ég kom í dómsmálaráðuneytið og stóð frammi fyrir því verkefni árið 2010 ákvað ég að setja það inn í langvinnari farveg að engar breytingar yrðu gerðar fyrr en í ársbyrjun 2015. Þá slaknaði á öllu og menn gátu farið að ræða rólega um það sem fyrir dyrum var. Þannig á að ráðast í breytingar hygg ég. Hvað þennan þáttinn snertir legg ég áherslu á að hér eigum við öll meira og minna sök á en við eigum að læra af mistökum sem við höfum gert á liðnu árum hvað þetta snertir.

Það sem er ljóst varðandi þetta frumvarp og skipulagsbreytingarnar er fyrst og fremst eitt: Þær eru umdeildar. Þetta eru umdeildar tillögur sem liggja á borðinu. Þá segi ég þetta: Sá sem ætlar að umbylta verður að geta sannfært okkur sem eigum að standa vörð um hinn almenna lagaramma um að ríkar ástæður séu til að ráðast í breytingarnar, vegna þess að sönnunarskyldan hvílir á breytandanum, á þeim sem er að umbylta og breyta. Sönnunarskyldan hvílir ekki í þessum sal. Hún hvílir hjá hæstv. ráðherra sem gengst fyrir umdeildum breytingartillögum. Hann verður að hafa mjög ríkar ástæður til að fara fram gegn sannanlega mjög sterkum vilja mjög margra. Nú hefur komið fram að fyrir liggur skýrslubeiðni frá þingmönnum þar sem lögð er fram 21 spurning sem menn vilja fá svör við. Það eru ýmsar veigamiklar spurningar sem snúa að stjórnsýsluþáttum málsins, sem snúa að fjármálahliðinni og öðrum þáttum einnig.

Síðan er hitt að það hefur komið fram beiðni frá formönnum allra stjórnarandstöðuflokkanna á þingi um að Ríkisendurskoðun ráðist í sérstaka stjórnsýslukönnun á því fyrirkomulagi sem hér er lagt til. Þá kem ég að veigamesta þættinum í þessu öllu sem snýr að grunnprinsippunum í skipulagi stjórnsýslu okkar. Ég hef skilið það svo að við höfum í megindráttum verið að feta okkur út á þá braut að framkvæmdir séu á einum stað og eftirlitið á öðrum. Þetta er grunnhugsun sem við erum að feta okkur út af. Ég tala nú ekki um þegar um er að ræða mjög mikla fjármuni, þá skiptir máli að við greinum á milli framkvæmdar og eftirlits. Þetta hefur verið hugsunin við allflestar kerfisbreytingar sem ráðist hefur verið í á undanförnum árum, að færa þætti sem voru í ráðuneytunum annað og síðan sé það ráðuneytið sem sé eins konar eggjaskurn sem heldur utan um starfsemina, samræmir þess vegna stefnu okkar í þróunarsamvinnu. Ráðuneytið getur gert það með almennum hætti en framkvæmdin er annars staðar og svo kemur eftirlitið og allt spilar þetta saman.

Mér sýnist að verið sé að fara í gagnstæða átt með þennan þáttinn. Ég sé ekki betur en að í greinargerð með frumvarpinu sé sérstaklega tekið fram um Þróunarsamvinnustofnun Ísland, og ég leyfi mér að vitna, með leyfi forseta: „ÞSSÍ hefur unnið mjög gott starf á vettvangi þannig að eftir því er tekið, og hefur margsannað sig í óháðum úttektum.“

Þá spyr ég um enn einn þáttinn. Ég hef vísað áður í spurningarnar 21 frá þingmönnum sem menn vilja fá svarað, ég hef vísað í beiðni formanna stjórnarandstöðuflokkanna um að Ríkisendurskoðun ráðist í sérstaka könnun á málinu og ég er þá kominn að þriðja þættinum sem lýtur að samstarfi okkar á erlendri grundu sem er við þróunarnefnd OECD, sem gengur undir skammstöfuninni DAC. Þar á bæ hafa menn talað um að þessi mál stjórnsýslulega, stofnanalega, með tilliti til árangurs, vandaðra vinnubragða, verði metin á jafningjagrundvelli og þetta gerist árið 2016. Og þá spyr ég: Hvers vegna ekki að bíða eftir því? Hvers vegna ekki að læra af mistökum sem við höfum gert, og ég tek fram „við“, þ.e. sem þingið, stjórnsýslan, ríkisstjórnir, með því að vera of bráðráð? Af hverju bíðum við ekki? Hvað liggur á? Okkur er sagt að ekki sé verið að spara peninga. Það eru miklar efasemdir um hversu ágæt þessi breyting sé og þegar kemur að því að spyrja hæstv. ráðherra um sönnunarbyrðina stendur á því að við fáum í þessum sal svör við ýmsum spurningum sem við þurfum að fá svarað. Við þurfum að fá þau. Hefur komið fram einhver gagnrýni frá samstarfsaðilum okkar innan OECD um að þetta fyrirkomulag sé slæmt? Ég bara spyr. (Forseti hringir.) Hæstv. forseti hefur gefið til kynna að ræðutíma mínum sé lokið og ég virði það að sjálfsögðu.