144. löggjafarþing — 85. fundur,  25. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[19:29]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu sem hefur verið að megninu til ágæt og málefnaleg en þó ekki alveg. Ég ætla að nota þann tíma sem ég hef til að svara einhverjum af þeim spurningum sem hafa komið fram en síðan að sjálfsögðu mælist ég til að málið fari til hv. utanríkismálanefndar þar sem gefst færi á að halda áfram umræðum um málið og koma með athugasemdir o.s.frv.

Fyrst skal segja að málið hefur að sjálfsögðu verið afgreitt í ríkisstjórn og af þingflokkum ríkisstjórnarinnar þannig að ekki þarf að efast um stuðning við það. Það hefur reyndar margt komið á óvart í þessari umræðu og á köflum finnst mér eins og hv. þingmenn hafi verið frekar illa upplýstir eða með rangar upplýsingar um einstök atriði sem þeir hafa komið á framfæri. Í fyrsta lagi vil ég byrja á að segja almennt að það er öllum í hag að fyrirkomulag þróunarsamvinnu sé vel skipulagt og skilvirkt og að því stefnum við. Ég vil líka taka fram að í þeim starfshópi sem vann við undirbúning þessa frumvarps voru fulltrúar ÞSSÍ þannig að frumvarpið hefur sannanlega ekki verið unnið án samráðs við þá stofnun. Það skal líka leiðrétt að þetta er ekki í fyrsta skipti sem frumvarp þessa efnis er lagt fram, ólíkt því sem hér hefur verið haldið fram. Í umræðum mátti gæta þess að verið var að rugla stefnumótun, aðferðafræði og verklagi saman við sameininguna sjálfa. Það er eitthvað sem breytist ekkert við sameininguna. Starfsemi okkar á vettvangi mun ekkert breytast heldur, það er yfirstjórnin, það er umsýslan sem við erum að breyta.

Varðandi þá greiningu sem hér hefur verið vitnað til, ég kem aftur að henni síðar, sem Þórir Guðmundsson vann þá er hún ítarleg og faglega unnin. Menn skulu ekki efast um það. Hún byggði á samtölum við 200 einstaklinga og heimsóknum víða um heim og hann skoðaði meðal annars fyrirkomulag annarra svokallaðra DAC-ríkja.

Hér hefur verið spurt um það atriði að tala einni röddu á alþjóðavettvangi. Í textanum tölum við um að mikilvægt sé að við tölum einni röddu. Í því felast engar dylgjur. Það er hins vegar mikilvægt að þeir sem starfa fyrir Ísland á erlendum vettvangi geri það, tali einni röddu. Ég hygg að hægt sé að finna dæmi um annað og ég legg til að hv. þingmenn í utanríkismálanefnd fari fram á að slík dæmi verði dregin upp. Ég held að ekki sé rétt að gera það við þessa umræðu, en það eru til dæmi.

Síðan langar mig að nefna að við erum með stór mál undir í utanríkisstefnu okkar. Það eru að sjálfsögðu mannréttindi, loftslagsmálin, þróunarmarkmið, mannréttindamál og ýmislegt annað. Þetta þarf allt að fúnkera og starfa sem ein heild og tala einni röddu.

ÞSSÍ hefur að sjálfsögðu breyst mjög mikið, þar á meðal hafa verið aukin samskipti og samstarf við alþjóðastofnanir sem fjölþjóðleg þróunarsamvinna gengur mest út á. Menn hafa líka talað hér eins og það sé ekkert að gerast í þróunarmálum nema innan ÞSSÍ. Það er bara alrangt, það er unnin heilmikil vinna í ráðuneytinu og þar eru mjög færir sérfræðingar og fært fólk sem sinnir einnig þróunarsamvinnu og þróunarverkefnum. Ég vil líka minna á tilgang núgildandi laga vegna þess að hér var talað um að framkvæmdin ætti ekki heima í ráðuneytinu. Tilgangur núgildandi laga er einmitt sá að ná betur utan um málaflokkinn. Þegar farið er í gegnum greinargerðina og tilurð frumvarpsins sem þá var lagt fram og samþykkt er það gegnumgangandi. Það sem meira er og kemur fram, sem ég mun koma að á eftir ef ég hef tíma, er að með því var verið að auka vald ráðherrans á þeim tíma. Það er ekki verið að gera það með þessum tillögum núna. Þessi samlegðaráhrif eru alveg ótvíræð.

Hér hafa menn verið að dylgja eitthvað um að frumvarpið sé runnið undan rifjum embættismanna, að hafa þetta fyrirkomulag. Ég veit ekki hvernig það var gert hér fyrr á árum, kem kannski aðeins inn á það á eftir, en það er alveg klárt mál að það er ekki runnið undan rifjum embættismanna að fara þessa leið. Við fengum óháðan sérfræðing til að meta hvort ástæða væri til að breyta vegna þess að svokölluð DAC-nefnd lagði til að skipulag þróunarsamvinnunnar yrði skoðað sérstaklega. Ég hef ekki haldið neinu öðru fram, ég hef ekki sagt að DAC-nefndin hafi lagt til þessa leið.

Það má líka finna margt annað í tillögum rýnihópsins eða réttara sagt ábendingum vegna þess að honum var ekki ætlað að koma fram með grjótharðar tillögur. Meðal annars er bent á að vinna eigi frekar að stefnumótun og sýn á það hvernig gjafaríki Ísland vill vera í framtíðinni. Það kemur fram hjá þeim að það gæti þurft að forgangsraða enn frekar hvað varðaði samstarfslönd og þess háttar. Það er margt í þessari rýni sem í rauninni styrkir það að nauðsynlegt var að setjast yfir málin. Ég ítreka að ég hef ekki sagt að þeir hafi lagt til að stofnunin yrði sameinuð ráðuneytinu, hins vegar að það yrði skoðað.

Því hefur verið haldið fram að verið sé að vinna jafningjarýnina núna. Það er bara rangt, það er ekkert verið að vinna hana núna. Það stendur til að gera það 2016, og hún yrði þá væntanlega tilbúin 2017 þannig að menn hafi það líka á hreinu. Hún er ekki eingöngu vegna ÞSSÍ, ráðuneytið er allt undir í þeirri jafningjarýni sem á að vinna. Hér var því haldið fram að verið væri að misnota DAC-skýrsluna einhvern veginn. Ég er nú búinn að svara því, það er einfaldlega rangt og það er staðreynd að í henni er lagt til að Ísland skoði fyrirkomulagið. Það kemur meðal annars fram á bls. 26 og 27 í kafla 90 og 91.

Hvað er átt við þegar talað er um skörun og tvíverknað? Það er ein spurning sem kom hér upp. Það er til dæmis átt við málefnavinnu og stoðþjónustu. Á báðum stöðum er til dæmis verið að vinna að fjármálum, kynningarmálum og árangurseftirliti. Það eru tveir gagnagrunnar fyrir verkefni og upplýsingagjöf til DAC-nefndarinnar. Samskipti við alþjóðastofnanir fara bæði í gegnum ÞSSÍ og ráðuneytið. Það veldur tvíverknaði og ruglingi. Málefnalegt samráð á milli tveggja lítilla eininga — það eru níu manns hér heima í ÞSSÍ, átta í ráðuneytinu — veldur bæði tvíverknaði og ruglingi og tekur að sjálfsögðu tíma frá fólki sem gæti nýst í að efla starfið að öðru leyti. Við skulum líka muna að tilgangur heildarskipulags þróunarsamvinnu er að koma stefnumiðum og markmiðum stjórnvalda í framkvæmd.

Það kom fram að ólíðandi væri að engar athugasemdir væru gerðar við 8. gr. Það er ekkert verið að breyta þeirri grein nema einu orði. Ef hv. þingmaður hefði kynnt sér hvernig greinin er í núgildandi lögum hefði hún áttað sig á því. Það er verið að breyta orðinu „áætlun“ í „stefna“. Það er öll breytingin. Öðru er ekki breytt í þeirri grein.

Hér var talað um andstæða aðferðafræði hjá utanríkisráðuneytinu og ÞSSÍ. Þetta er ekki rétt. Byggt er á nákvæmlega sömu aðferðafræði í tvíhliða og fjölþjóðlegri þróunarsamvinnu. Eini munurinn er að það eru ólíkir aðilar sem starfa á vettvangi með stjórnvöldum og fjármögnun er ekki með sama sniði. Nálgunin er alveg sú sama þannig að þetta er einfaldlega rangt.

Svo tala menn hér um að diplómasía og þróunarsamvinna fari ekki saman, það séu aðrar hvatir sem búi að baki. Þetta nefndi meðal annars formaður Samfylkingarinnar. Það er að sjálfsögðu ekki alveg rétt að verkefni innan ráðuneytis séu andstæð því sem ÞSSÍ er að gera. Við vinnum í raun að sömu verkefnunum, það er sami hugsunarháttur og aðferðafræði á bak við alla þessa þróunarsamvinnu. Þetta er byggt á miklum misskilningi. Og ég vil líka taka fram að ég hafna því algjörlega að diplómasía á Íslandi sé eitthvað verri en í Danmörku eða Finnlandi þar sem sú aðferðafræði er notuð sem við leggjum upp með hér.

Aðkoma þingsins hvað viðvíkur þróunarsamvinnunefndinni og þær breytingar sem þar eru gerðar eru gerðar með það í huga að þingið eigi aðkomu að stefnumarkandi umræðu í þróunarsamvinnu. Við erum að sameina nefndir sem eru til staðar í dag vegna þess að það hefur valdið ruglingi og markmið þeirra í sjálfu sér óljós. Ef það þarf að hafa þennan hóp öðruvísi samsettan, með fleiri þingmönnum eða eitthvað slíkt, þá ræðum við það að sjálfsögðu í utanríkismálanefnd sem og aðrar breytingar á þessari hugmynd. Ég er ekki að segja að það þurfi að vera fimm þingmenn, þetta getur verið með allt öðrum hætti, það getur verið sveigjanleiki í þessu. Það er alveg klárt, við þurfum að fara í gegnum það. Ég tek fram að í Finnlandi starfar einmitt sams konar nefnd og hér er lagt til að verði komið á fót.

Var skortur á samráði við þróunarsamvinnunefnd? Því hefur verið haldið fram. Það er rangt. Skýrslan var sérstaklega kynnt fyrir þróunarsamvinnunefnd, auk þess fundaði ég með samstarfsráðinu þar sem fulltrúar úr þróunarsamvinnunefnd sitja einnig. Þessir aðilar hafa verið vel upplýstir allan tímann sem og að sjálfsögðu starfsfólk ÞSSÍ.

Hvað varðar árangursstjórnun þá hefur ÞSSÍ tileinkað sér aðferðafræði árangursmiðaðrar stjórnunar, nokkuð sem telst vera til bestu starfsvenja og er algjörlega til fyrirmyndar. Árangursmiðuð þróunarsamvinna hefur einnig verið innleidd í starfsemi þeirra alþjóðastofnana sem Ísland styrkir og er aðili að. Þetta er ekkert nýtt fyrir okkur, við munum vinna eftir þessu áfram eins og gert hefur verið hingað til. Við leggjum áherslu á fagleg og góð vinnubrögð.

Hér hefur líka verið komið inn á gagnrýni og eftirlit, m.a. af DAC. Það er alveg rétt, það kom fram gagnrýni frá DAC-nefndinni á sínum tíma um að við þyrftum að bæta eftirlit. Við því hefur verið brugðist. Það er búið að fara í gegnum verklagsreglur og eftirlit með skuldbindandi samningum o.s.frv. Það er búið að fara í gegnum þetta allt saman og laga þetta miðað við þær ábendingar, sem var mjög gott að fá nota bene. Það er að sjálfsögðu eftirlit líka með fjölþjóðastofnunum þannig að ég fer ekki neitt dýpra í það.

Hér hafa menn talað um upplýsingamálin, alveg eins og þau bara hverfi, eins og menn hætti að segja frá góðum hlutum, hætti að segja frá því góða sem gert er í þessu starfi. Mér finnst það mjög undarleg umræða, ég verð bara að segja það, fyrir utan að utanríkisráðuneytið er með mjög góða upplýsingamiðlun og sinnir henni afar vel.

Varðandi það fjármagn sem kemur utan frá til verkefna ÞSSÍ þá er vitanlega út úr kú að halda því fram að það geti ekki orðið þannig áfram eins og hér hefur komið fram. Það kom meðal annars fram í máli mínu í upphafi að við ætlum að nota áfram enska heitið á Þróunarsamvinnustofnun Íslands, ICEIDA. Þetta er virt og gott nafn sem menn þekkja og treysta. Við ætlum að sjálfsögðu að nota það áfram vegna þess að verkefnin á vettvangi eru mjög góð, það hefur gengið mjög vel. Ég óttast ekki að við lendum í einhverjum vandræðum með það, heldur þvert á móti. Við leggjum að sjálfsögðu áherslu á það líka í ráðuneytinu að sækja peninga annars staðar að fyrir verkefni sem Þróunarsamvinnustofnun vinnur að eða við á öðrum vettvangi.

Hér hefur verið rætt um starfsmannamálin, eðlilega, og hvernig framgangskerfi ráðuneytisins samræmist því sem er hjá ÞSSÍ. Báðar stofnanirnar hafa flutningsskyldu og báðar eru með ákveðið framgangskerfi. Þetta þarf hins vegar að samræma, það er alveg satt, en ég vil segja það hér því að ég hef sagt það við starfsfólk ÞSSÍ alltaf í þessari umræðu að höfuðáherslan er lögð á að sú þekking og reynsla sem er innan ÞSSÍ og í ráðuneytinu tapist ekki, það þynnist ekki út um aðrar deildir ráðuneytisins eða eitthvað svoleiðis. Ég legg mikla áherslu á að þeir starfsmenn sem vinna að þróunarverkefnum í dag geri það áfram en við eigum heldur ekki að banna þeim ef þeir kjósa að flytjast eitthvað til. Það gengur ekki, en við verðum að tryggja að verksvitið og kunnáttan verði áfram eins og hún er í dag.

Er verið að víkja frá leiðbeiningum um starfsmannabreytingar? Hér var því haldið fram. Það er ekki rétt. Í þeirri handbók sem var nefnd hér um sameiningu ráðuneyta fylgjum við leið 2, menn geta svo flett upp hvernig hún er.

Dæmi um samruna. Við verðum að átta okkur á því að ÞSSÍ er lítil íslensk ríkisstofnun. Eins og ég sagði áðan starfa níu manns hérna á Íslandi ef ég man töluna rétt. Við þekkjum dæmi um að hlutar úr öðrum stofnunum hafa verið fluttir inn í aðrar stofnanir eða inn í ráðuneyti eða. Það er ekki til dæmi sem ég veit um að heil stofnun hafi verið flutt inn í ráðuneyti, ég þekki ekki dæmi þess, en hlutar hafa verið fluttir til, svo sannarlega. Hér hefur verið talað um þróunina í þessum málum. Síðustu 20 ár hefur þróunin verið sú að færa verkefni út úr ráðuneytum, það er rétt, en þessi stefna sem hefur verið kölluð nýsköpun í ríkisrekstri hefur alls staðar á Vesturlöndum verið endurskoðuð. Það er viðurkennt í dag að líta þurfi á þetta öðrum augum, það þurfi að styrkja ráðuneytin og vinnuna þar.

Þetta voru margar spurningar, ein snerti fjárlagaliðina. Þróunarsamvinnan er á sérstökum fjárlagalið. Maður tekur þá peninga ekkert til þess að styrkja sendiráð eða eitthvað slíkt. Það er mikill misskilningur, það er vont ef þingmenn eru ekki meðvitaðir um þetta. Því verður að sjálfsögðu ekki breytt.

Var haft samráð við Ríkisendurskoðun og DAC-nefndina? Já, það var haft samráð við vinnslu frumvarpsins við fjölmarga aðila, bæði innlenda og erlenda. Þar má nefna Ríkisendurskoðun, stéttarfélög, forsætisráðuneytið, fjármálaráðuneytið og auk þess var rætt við ríki með reynslu af sambærilegum skipulagsbreytingum. Þetta var gert með óformlegum hætti svo það liggi fyrir. Það var ekki beðið um formlegar ábendingar frá Ríkisendurskoðun eða öðrum slíkum. Ríkisendurskoðun kom hins vegar með gagnlegar ábendingar.

Hér hefur mikið verið talað um eina skýrslu, menn gagnrýna ráðherrann fyrir að leggja eina skýrslu undir. Mér sýnist að stjórnarandstöðuþingmenn hafi vitnað eingöngu í skýrslu sem unnin var að beiðni fyrrverandi ráðherra. (Gripið fram í: Nei.) Það kemur alveg skýrt fram og ef menn ætla að vitna í skýrslu dr. Sigurbjargar Sigurgeirsdóttur, þá held ég að sé nauðsynlegt að taka eitt fram vegna þeirrar gagnrýni sem hefur komið á þann sem vann skýrsluna fyrir utanríkisráðuneytið, Þóri Guðmundsson, óháðan faglega aðila, að sú ágæta kona sem vann fyrir fyrrverandi ráðherra er vitanlega samfylkingarkona. Hún sat í umbótanefnd Samfylkingarinnar, fór í prófkjör fyrir Samfylkinguna — og hvernig er skýrslan unnin? Það stendur í upphafi hennar að það á ekkert að skoða neinar breytingar á starfsemi (Gripið fram í.) ÞSSÍ. (Forseti hringir.) Það á ekki einu sinni að gera það. (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) Það á ekkert að skoða þetta, það eina sem skýrsluhöfundur átti að gera á þessum tíma (Forseti hringir.) var að skrifa það sem þáverandi ráðherra pantaði. Það er ekkert annað og það kemur bara (Gripið fram í.) fram og er sagt í skýrslunni. (Gripið fram í.) Það er sagt í skýrslunni. Ég þarf ekkert að bera það neitt til baka, það stendur þar skýrum orðum.

Að öðru leyti vil ég þakka fyrir þessa umræðu. (Forseti hringir.) Ég vonast til að utanríkismálanefnd fari mjög vel yfir málið, (Forseti hringir.) kalli gesti til sín og hlusti á allar þær skoðanir, bæði gagnrýnar og jákvæðar, sem hafa komið fram.