144. löggjafarþing — 85. fundur,  25. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[19:45]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. utanríkisráðherra er heitt í hamsi. (Utanrrh.: Nei.) Ég verð að segja að ég er svolítið sleginn yfir þessari ræðu, þá sérstaklega yfir því hve víðtækt samráð hann segir hafa verið haft um þetta mál og að eftir allt þetta mikla samráð er óánægjan með frumvarpið sem raun ber vitni. Hæstv. ráðherra var að flytja samfellda röksemd fyrir því að þetta mál á að láta á ís. Hann segist vera búinn að tala við alla hlutaðeigandi aðila og síðan kemur á daginn að yfirgnæfandi meiri hluti þessara hlutaðeigandi aðila er málinu andvígur. Við þekkjum það innan úr Þróunarsamvinnustofnun og frá mjög mörgum sem hafa komið að þessum málum að þeir eru fullir efasemda um málið. Ég geri mér grein fyrir því að einhverjir eru hlynntir því en almenna stemningin er sú að menn eru mjög gagnrýnir á frumvarpið.

Ég vil segja það að þegar Íslendingar gerast aðilar að mannréttindasáttmálum, t.d. núna síðast gegn pyndingum, er krafan sú af hálfu Sameinuðu þjóðanna eða mannréttindastofnana sem við eigum aðild að, að óháðir aðilar annist eftirlit, óháðir ríkisvaldinu. Nú er ég ekki að gera því skóna eða leggja til að Þróunarsamvinnustofnun verði ríki í ríkinu, sjálfstæð stofnun í þeim skilningi að engin tengsl séu við stefnumörkun af hálfu stjórnvalda, ég er ekki að leggja það til, en ég er að segja að það getur verið kostur að hafa ákveðna fjarlægð þarna á milli (Forseti hringir.) og færi frekari rök fyrir því í öðru andsvari.