144. löggjafarþing — 85. fundur,  25. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[19:47]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður ræddi hér samráð og talaði um að ráðherrann hefði sagt að það hefði verið haft samráð við alla hlutaðeigandi, ég held að hann hafi notað það orð. Ég man ekki eftir að hafa notað nákvæmlega það orð. Það var hins vegar haft samráð við þá aðila sem koma beint að þessu máli, en það er líka alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að það var enginn hallelúja-kór yfir þessari tillögu. Það komu fram miklar efasemdir og það komu fram gagnrýnisraddir þannig að það sé algjörlega skýrt af minni hálfu og það viðurkennt. En það hafa líka komið fram aðrar raddir sem segja að þetta sé í rauninni kannski eðlileg þróun miðað við það hvernig hlutirnir hafa verið almennt í samstarfsríkjum okkar og hjá þeim sem við vinnum með, þetta er sú þróun sem er að gerast hjá flestum.

Ég tek undir og viðurkenni það alveg, hv. þingmaður, að það eru gagnrýnisraddir uppi fyrir utan veggi þessa ágæta húss, við skulum ekkert efast um það. Ég held hins vegar að þegar upp er staðið muni menn sjá að þetta sé leið sem muni leiða til meiri og betri þróunarsamvinnu, muni styrkja þróunarsamvinnu í heild, fjölþjóðlega og tvíhliða, þar sem við fáum að mínu viti sterkari hóp sem vinnur sameiginlega að þessum málum. Það er það sem ég vonast til að verði niðurstaðan.