144. löggjafarþing — 85. fundur,  25. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[19:51]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég hafði vonast til þess sérstaklega undir fyrri parti ræðu hæstv. ráðherra, þá var hægt að eiga við hann vitræna umræðu um þetta mál. En ég ætla ekki að láta hann draga mig niður á það plan sem hann lauk ræðu sinni á, ég ætla bara að segja að mér finnst ekki sæmandi handhafa framkvæmdarvaldsins að draga í efa faglega hæfni einstaklings sem hefur að baki margra ára háskólanám vegna þess að hún er samfylkingarkona, eins og fram hefur komið. Ég ætla ekki að spyrja hæstv. ráðherra hvaða flokksskírteini hugsanlega sá ráðgjafi sem hann hefur leitað til hefur. Ég bið hann aðeins að lesa inngang þeirrar skýrslu, sérstaklega viðbótina undir heitinu Nota bene.

Í ræðu hæstv. ráðherra fannst mér ákaflega lítið koma fram. Í upphafi þessarar umræðu og fyrir umræðuna í þinginu lýsti hæstv. ráðherra því yfir að allar skýrslur sem hefðu verið gerðar hnigju að þessari niðurstöðu. Hann var rekinn til baka með það. Hæstv. ráðherra sagði í tveimur andsvörum, sem hann ætti að lesa sjálfur, að tillaga sín byggði meðal annars á ábendingu, ráðleggingu frá DAC-nefndinni. Hann var rekinn til baka með það og staðfesti það áðan. Nú kemur hæstv. ráðherra og bítur höfuðið af skömminni eftir að hafa verið spurður um dæmi um tvíverknað og sagt í andsvari að það hafi engir árekstrar verið, þá kemur hann hér og segir að það hafi verið tvíverknaður í samskiptum við erlendar stofnanir og þær hafi valdið ruglingi. Ég kannast ekki við það á sínum tíma þegar ég var ráðherra. Það að koma hingað með slíkar dylgjur og vilja ekki segja frá því en segja að nefndin eigi að kanna það finnst mér ekki sæmandi hæstv. ráðherra, en það er í stíl við niðurlag ræðu hans þar sem hann í reynd réðst að manneskju úr háskólasamfélaginu fyrir það (Forseti hringir.) að hún hefur ekki að dómi hæstv. ráðherra rétt flokksskírteini. Hversu lágt geta menn farið?