144. löggjafarþing — 85. fundur,  25. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[19:57]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í skýrslu frá 2008 sem unnin var fyrir þáverandi utanríkisráðherra stendur á bls. 5, með leyfi forseta:

„Skoðunin hefur beinst að fyrirkomulagi þróunarsamvinnunnar innan utanríkisþjónustunnar hér á landi og miðast tillögurnar fyrst og fremst við að skýra stöðu málaflokksins innan stjórnsýslunnar […]

Við upplýsingasöfnun hefur hins vegar skipulag þróunarsamvinnu annarra landa ekki verið haft til viðmiðunar nema að mjög litlu leyti …“

Síðan segir á bls. 10, með leyfi forseta:

„Þróunarsamvinna er einn af hornsteinum íslenskrar utanríkisstefnu […] Á stefnumótunarfundi í utanríkisráðuneytinu hinn 21. september sl. kynnti ráðherra stefnumörkun sína um fyrirkomulag þróunarsamvinnu.“

Í 5. lið segir:

„Gert er ráð fyrir því að Þróunarsamvinnustofnun Íslands (ÞSSÍ) starfi áfram sem sjálfstæð stofnun innan þessa heildarskipulags …“

Virðulegi forseti. Ég fæ þetta ekki skilið öðruvísi en að hæstv. ráðherra á þeim tíma hafi falið þessum eflaust mjög vel menntaða og vandaða sérfræðingi að skrifa (Forseti hringir.) þessa skýrslu, einmitt út frá því sem hér kemur fram. Það stendur hér að gert sé ráð fyrir að Þróunarsamvinnustofnun Íslands haldi áfram (Forseti hringir.) sem sjálfstæð stofnun. Auðvitað er það það sem kemur út úr skýrslunni.