144. löggjafarþing — 86. fundur,  26. mars 2015.

staða svæða í verndarflokki.

[10:35]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar að gera að umtalsefni svör hæstv. umhverfisráðherra við spurningu sem ég hef lagt fyrir hann um stöðu friðlýsingar á svæðum og virkjunarkostum í verndarflokki. Það liggur fyrir að samkvæmt rammaáætlun er ákveðnum svæðum skipað í verndarflokk og samkvæmt lögum á þá strax að hefjast vinna við friðlýsingu þessara svæða.

30. október 2013 fékk ég svar frá hæstv. umhverfisráðherra þar sem tilteknir eru allir kostirnir og öll svæðin sem eru í verndarflokki. Ef ég dreg saman þau svör í tiltölulega stuttu máli má segja að þar sé unnið að því að ná fram markmiðum laganna og ljúka friðlýsingu. Gott og vel, þetta er svar um að unnið sé að málum og það er ágætt. Rúmu ári seinna, 16. desember 2014, fæ ég svar við sömu fyrirspurn sem ég lagði fram aftur. Það er listilegt svar út frá skáldskaparlegu tilliti því að þar er reynt að umorða gamla svarið en þegar svörin eru lesin saman er þetta nánast sama svarið. Það er enn þá unnið að þessu öllu. Það má segja að þetta sé gegnumgangandi, það er unnið að því að móta hugmyndir um stækkun Vatnajökulsþjóðgarðs, það er í skoðun hvort svæðið geti fallið að Vatnajökulsþjóðgarði. Enn liggur ekki fyrir afmörkun svæðisins. Enn liggur ekki fyrir hvernig friðlýsing verður útfærð. Enn liggur ekki fyrir niðurstaða um friðlýsingu. Nákvæm afmörkun liggur ekki fyrir. Enn liggur ekki fyrir hvernig friðlýsing verður útfærð. Unnið hefur verið að breytingum. Enn liggur ekki fyrir hvernig hægt verður að ná fram markmiðum um vernd svæðisins. Stefnt er að því að tengja saman ólík svæði innan einnar friðlýsingar. Málið er í biðstöðu.

Virðulegi forseti. Þetta er algjörlega ófullnægjandi árangur í því sem þegar hefur verið samþykkt á þinginu um að ljúka skuli friðlýsingu verndarsvæða, ekki síst í ljósi þess (Forseti hringir.) að sú túlkun virðist uppi að meðan ekki er (Forseti hringir.) lokið friðlýsingu á svæðum (Forseti hringir.) í verndarflokki sé lögmætt að fara fram (Forseti hringir.) með nýjar hugmyndir um virkjunarkosti á þessum sömu svæðum. Ég spyr hæstv. umhverfisráðherra hverju sæti.