144. löggjafarþing — 86. fundur,  26. mars 2015.

staða svæða í verndarflokki.

[10:37]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda, það er gott að fá þessi mál á dagskrá. Það er svo sem alveg rétt að það er verið að vinna að þessum málum, en ef til vill erum við með fullmargar friðlýsingar undir og það tefur málið. Það er líka rétt sem hér er getið um, lögin eru skýr hvað varðar verndarflokk rammaáætlunar, að það eigi að hefja undirbúning friðlýsingar landsvæða. En ýmislegt kemur fram og það var ekki nógu aðgreint landfræðilega, nákvæmar landfræðilegar afmarkanir lágu ekki fyrir við afgreiðslu þingsályktunar í janúar 2013. Það hefur meðal annars tafið fyrir og það tekur sem sagt lengri tíma að ná samkomulagi við landeigendur um afmörkun þessara svæða.

Það er tvenns konar friðanir í gildi, má eiginlega segja þrenns konar, það er þetta varðandi rammann og líka friðlýsing varðandi náttúruvernd. Ég segi að ég vil frekar að við setjum í forgang ákveðnar friðlýsingar og jafnvel stærri svæði, gerum það vandlega og skiljum að friðlýsing þýðir líka að það þarf að setja fjármagn varðandi vöktunina og að það sé hugsað um það. Oft hefur ekki verið gætt að því. Það er ekki nóg að friðlýsa, maður verður líka að hugsa um hinn endann, hvað þetta þýðir til framtíðar varðandi rekstur og annað þess háttar.

Nú þegar eru 20% af Íslandi friðlýst. Það er þannig. Ég vil að við pössum upp á það sem við höfum friðlýst og gerum það vel en séum ekki endilega með of marga kosti undir. Það er mín afstaða.