144. löggjafarþing — 86. fundur,  26. mars 2015.

staða svæða í verndarflokki.

[10:40]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Svar hæstv. umhverfisráðherra um það af hverju ekkert gangi að ljúka við lögbundnar skyldur umhverfisráðuneytisins um að friðlýsa svæði sem er búið að setja í verndarflokk rammaáætlunar og hefur verið samþykkt á Alþingi Íslendinga að setja í verndarflokk rammaáætlunar er að það séu of mörg svæði í verndarflokki. Er hæstv. umhverfisráðherra ósammála samþykkt Alþingis þegar hún segir að það séu of mörg svæði í verndarflokki?

Hæstv. ráðherra ræðir um fjármagn. Hver tók ákvörðun um að skera niður fjármagn til friðlýsinga? Hver tók ákvörðun um það í fjárlögum ársins fyrir árið 2014? Það var þessi sami hæstv. ráðherra og sá stjórnarmeirihluti sem hún tilheyrir sem ákvað það, tók þá pólitísku ákvörðun að skera niður fjármagn til friðlýsinga þannig að það er ekki boðlegt, herra forseti, að koma hér upp og segja: Það eru of mörg svæði, þetta eru of margar friðlýsingar, fullmargar friðlýsingar. Þetta er það sem Alþingi hefur samþykkt og það er ekki nóg fjármagn. Af hverju er ekki nóg fjármagn? Af því að það var ákveðið að skera það niður af þessum sama stjórnarmeirihluta. (Forseti hringir.) Mér finnst þessi svör ekki í lagi. Það er búið að samþykkja þetta (Forseti hringir.) á Alþingi. Ráðuneytinu, framkvæmdavaldinu, ber að vinna eftir því. Þetta er svo sem (Forseti hringir.) ekki fyrsta dæmið þar sem við sjáum að það er misbrestur á því.