144. löggjafarþing — 86. fundur,  26. mars 2015.

efling samtakamáttar þjóðarinnar.

[10:43]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Mig langar að ræða við hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, sem jafnframt er formaður annars stjórnarflokksins, um ákveðið atriði í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Ég er reyndar alveg sammála því sem fram kemur í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, að auka þurfi mjög samstöðu meðal þjóðarinnar og að vinna þurfi gegn sundurlyndi og tortryggni, efla traust. Um það er Björt framtíð að stórum hluta stofnuð, við höfum þá trú að til séu aðferðir í pólitík til að auka samkennd og sátt og byggja upp traust, og við deilum þeirri trú með mörgum þingmönnum og mörgu öðru fólki. Augljósar leiðir eru til dæmis samráð, við ætlum að horfast í augu við að á þingi eru ólíkar skoðanir og við eigum að leitast við að sætta þær skoðanir og eins úti í þjóðfélaginu. Eftir hrun blöstu við mjög stór deilumál. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar stendur:

„Ríkisstjórnin mun leitast við að virkja samtakamátt þjóðarinnar og vinna gegn því sundurlyndi og tortryggni sem einkennt hefur íslensk stjórnmál og umræðu í samfélaginu um nokkurt skeið.“

Mér finnst það vera flott setning. Ég hefði viljað sjá að unnið væri eftir því en við blasir samfélag sundrungar á þessum tímapunkti, samfélag sem mun einkennast af mjög hörðum deilum í kjaramálum. Það eru stór deilumál í þinginu og í samfélaginu sem verið hafa um árabil, eru algjörlega upp í loft, eins og deilan um virkjun og vernd, deilan um aðild að Evrópusambandinu. Þetta eru allt deilumál sem við blasir að mjög auðveldlega sé hægt að ná (Forseti hringir.) sátt í ef menn vilja.

Mig langar bara að spyrja hæstv. ráðherra, kalt mat og alveg í hreinskilni: Hefur ríkisstjórninni tekist það markmið sitt núna á miðju kjörtímabili, að efla og virkja samtakamátt þjóðarinnar?