144. löggjafarþing — 86. fundur,  26. mars 2015.

efling samtakamáttar þjóðarinnar.

[10:45]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég tel að við séum enn að glíma við ýmis mál sem tengjast falli fjármálafyrirtækjanna 2008 og 2009 að á meðan við stöndum í því verki sé ekki við því að búast að á skömmum tíma takist sú nauðsynlega sátt sem við sækjumst svo mjög eftir sem hér störfum ásamt með öðrum í þjóðfélaginu. Hins vegar voru á síðasta kjörtímabili sett á dagskrá af fyrrverandi ríkisstjórn mörg stór deilumál sem ríkisstjórnin hefur sett í mun betri farveg. Ég nefni þar til dæmis heildarendurskoðun á stjórnarskránni með öllu því brambolti sem því fylgdi hjá fyrrverandi ríkisstjórn. Það fannst okkur ekki góð forgangsröðun við þær aðstæður sem ríktu á síðasta kjörtímabili með öllum þeim atlögum að stjórnarskránni sem þá var ráðist í. Ég ætla ekki að rekja þá sögu alla.

Ég skal nefna annað dæmi, allar þær atlögur að sjávarútveginum í landinu sem gerðar voru á síðasta kjörtímabili, undirstöðuatvinnugreininni. Það fannst mér ekki til fyrirmyndar og eftirbreytni fyrir þá sem í kjölfarið fylgja.

Þá vísa ég til þess að það gerðist eiginlega á hverju einasta ári að fram kom heildaruppstokkun á sjávarútvegsstefnunni með nýju og nýju fyrirkomulagi ár eftir ár. Ég vísa líka til þess að á síðasta kjörtímabili (BjG: En núna?) var ekki unnið að sátt um rammaáætlunina heldur þurfti að breyta tillögum áður en þær komu fyrir þingið og var algerlega tekið fyrir það hér í þinginu að tillögur þær sem ráðherrarnir höfðu fengið í hendur áður en tillögunum var breytt, yrðu lagðar til grundvallar og afgreiðslu þingsins. Það voru sem sagt pólitísk fingraför á því máli. (Forseti hringir.) Það var það verklag sem við vildum vísa til en það er enn langt í land, (Forseti hringir.) það er alveg rétt, og sérstaklega birtast okkur átök á vinnumarkaði. (Forseti hringir.) Við Íslendingar þurfum að vinna sameiginlega úr þeirri stöðu.