144. löggjafarþing — 86. fundur,  26. mars 2015.

meðferð gagna um skattaskjól.

[10:53]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil í fyrsta lagi kalla eftir því þegar við ræðum um þessi mál að við höfum þá umræðu hófstillta, sanngjarna og málefnalega. Varðandi þá vinnu sem unnið er að í stofnunum sem heyra undir fjármála- og efnahagsráðuneytið er það svo að ég hef aldrei fengið ábendingu um að lög standi því í vegi að þær stofnanir, þeir aðilar sem vinna að skattrannsóknum og eftir atvikum saksókn í landinu, kalli eftir lagabreytingum þannig að meiri árangri megi ná, t.d. lagabreytingum af þeim toga sem hér er vísað til. Eiginlega þvert á móti, ég hef engar vísbendingar fengið um að þau gögn sem hafa staðið stofnunum til boða sé ekki hægt að sækja vegna þess að það skorti lagaheimildir.

Ég hef komið á fót starfshópum til að setja af stað frekari vinnu við að skoða þessa hluti. Meðal þess sem ég hef fengið í hendurnar eru drög að frumvarpi um griðaákvæði. Ég tek eftir því að menn grípa það í þingsal, í íslenskum stjórnmálum í dag, í pólitíkinni, og segja: Ja, hér er greinilega ætlunin að koma brotamönnum undan lögum og reglum. Það á að taka einhverja útvalda út úr.

Staðreynd málsins er sú að þar eru á ferðinni hugmyndir sem eru í fullkomnu samræmi við það sem nágrannaþjóðir okkar hafa verið að gera og meginhugsunin þar er sú að auka tekjur ríkisins og tryggja að samfélagið allt fái sanngjarna hlutdeild í þeim sköttum sem ber að greiða lögum samkvæmt. Það er meginhugsunin. Kjósi menn að túlka það á hinn veginn og segja að það komi ekki til greina að það komi nein slík lög eða önnur vegna hættunnar á að einhverjir sem við hefðum mögulega eftir miklar skattrannsóknir og aðfarir í útlöndum náð í skottið á, að við hefðum getað komið þeim á bak við lás og slá, þá gott og vel, (Forseti hringir.) þá getur vel verið að það sé samnefnarinn í íslenskum stjórnmálum í dag, en allar líkur eru þó til þess að ríkissjóður og þar með skattgreiðendur í landinu beri af því tjón. Ég held að við þurfum að reyna að hefja þessa umræðu upp á aðeins hærra plan.